Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Minnst tvö látin eftir að vörubíl var ekið á hóp fólks

27.08.2022 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd: Etienne Godiard - Unsplash
Að minnsta kosti tveir eru látnir og nokkrir slasaðir eftir að vöruflutningabíl var ekið á hóp fólks í götusamkvæmi í bænum Nieuw-Beijerland, sunnanvert í Hollandi síðdegis í dag. 

Endanlegur fjöldi látinna og slasaðra liggur ekki enn fyrir en rannsókn stendur yfir. Bílnum var ekið út af þjóðvegi og á hóp fólks sem sat úti við borð og gæddi sér á grillmat. Bærinn er um 30 kílómetra sunnan við Rotterdam.

„Nokkur fjöldi fólks er látinn og slasaður,“ segir í tilkynningu lögreglunnar í Rotterdam. Ökumann flutningabílsins sakaði ekki en hann var handtekinn á staðnum.  

Bíllinn er merktur spænska flutningafyrirtækinu El Mosca. Lögregla segir ekki enn vitað hvað varð til þess að bílnum var ekið útaf veginum og inn í hópinn. 
 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV