Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Suðurnesjasveiflan

Mynd með færslu
 Mynd: Midnight Librarian

Suðurnesjasveiflan

25.08.2022 - 11:25

Höfundar

From Birth to Breakfast er fyrsta plata Suðurnesjasveitarinnar Midnight Librarian. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Midnight Librarian innheldur tónlistarfólk af Suðurnesjum, úr Njarðvík, Grindavík og Garði m.a., en rótin liggur í tónlistarskólum svæðisins. Sveitin er átta manna og tónlistin dregur dám af R&B, sálar- og fönktónlist. Lögin eru frumsamin af sveitarmeðlimum.

Það er ekkert nýtt að sveitir íslenskar leggi sig eftir hrynheitri tónlist, mér verður hugsað til Boogie Trouble, Sælgætisgerðarinnar, Jagúar og endalaust er svosem hægt að telja upp. Atrennurnar eins misvel heppnaðar og þær hafa verið margar í raun.

Tónlistin hérna minnir mig óneitanlega á sett ungsveita sem viðruð eru á Músíktilraunum. Oftlega er einmitt um að ræða hóp úr tónlistarskólum sem auk hefðbundinnar rokkuppsetningar eru með blástur, hljómborð og fleira. Á efnisskránni iðulega fönk, djass og sálartónlist, ekki ósvipað því sem heyra má hér. Og í flestum – nei öllum tilfellum – er tónlistin undir afar sterkum áhrifum frá þegar hljóðrituðu efni erlendis frá. Með öðrum orðum, frumleika er ekki fyrir að fara í lagasmíðum né hljóðfæraleik. Þannig er þetta að langmestu leyti hér. Lögin ellefu eru langflest fönk- og sálarmottur sem ég hef heyrt margsinnis áður með öðrum flytjendum. Það er dálítið verið að nikka til Acid-Jazz stefnunnar, Jamiroquai, Brand New Heavies og álíka. Þetta rennerí Midnight Librarian verður því dálítið þreytandi til lengdar og eiginlega andlaust þegar verst lætur. Þegar best lætur er þetta sæmilegasta reið um þetta skapalón sem ég hef nefnt þó tilþrifalítil sé. Sveitin má hins vegar eiga það að þetta er ágætlega þétt hjá henni, spilamennskan, þó að lagasmíðarnar heilli mig ekki. Á þessu eru þó tvær undantekningar sem vísa vonandi veginn áfram. „Mindless“ er leitt af skemmtilega hljómandi gítar, fær mann til að sperra upp eyrun og „Chrome“ er flott, opnað með nánast austurlenskum hrynjandi og hvössum gítar. Fínasta stöff.

Ég get rétt ímyndað mér að hér sé á ferðinni hörkutónleikasveit. En það þarf að setjast þétt upp að teikniborðinu fyrir næstu breiðskífuumferð.  

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Endurfæðing og endurreisn

Tónlist

Gáskinn og gelgjan

Tónlistargagnrýni

Naskt nýbylgjurokk

Tónlist

Yfirmáta svöl