Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir Bónus óheimilt að selja undir kostnaðarverði

25.08.2022 - 22:01
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, telur að það sé ekki ábyrgt að frysta vöruverð fyrirtækisins. Krónan tilkynnti í gær að hún hygðist frysta verð á 240 vörutegundum. Guðmundur segir að markaðsráðandi staða geri fyrirtækinu ómögulegt að gera slíkt hið sama.

„Fyrirtæki eins og Bónus leggur mjög lítið á. Það er mjög lág álagning og við erum rosalega viðkvæm fyrir kostnaðarverðshækkunum. Og í raun er það þannig að við erum skilgreind sem markaðsráðandi og við megum ekki selja vöru undir kostnaðarverði og eins og ástandið er búið að vera þar sem þú ert að fá tugrósenta hækkun þá þurrkast álagning og fer undir kostnaðarverð og það er óheimilt í okkar tilfelli,“ sagði Guðmundur í viðtali í Kastljósi í kvöld.

Verðbólga er í um tíu prósentum og vöruverð hefur hækkað mikið síðan Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir sex mánuðum síðan. Guðmundur telur líklegt að vöruverð haldi áfram að hækka á næstunni. „Það eru erfiðir tímar framundan. Nú er sauðfjárslátrun framundan og mér sýnist að það sé verið að hækka verð til bænda um 20 til 30 prósent. Við eigum eftir að skoða hvaða áhrif það hefur á okkar innkaup.“

Þannig þú gerir ekki ráð fyrir því að þið getið tekið það allt á ykkur? „Nei það er útilokað. Eins og ég segi, álagningin í Bónus er lág og sérstaklega í landbúnaðarvörum. Ríkið tekur meira í virðisaukaskatt heldur við fáum fyrir að selja vöruna.“