Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

VR krefst fjögurra daga vinnuviku og 30 daga orlofs

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
VR krefst 30 daga orlofs og að vinnuvikan verði stytt niður í fjóra daga í komandi kjaraviðræðum. Félagið telur aðkomu stjórnvalda óhjákvæmilega ef bæta eigi kjör launafólks. Þetta kemur fram í kröfum VR og Landsambands íslenskra verslunarmanna gagnvart Samtökum atvinnulífsins.

Krefjast 32 stunda vinnuviku

Gerð er krafa um styttingu vinnuvikunnar niður í fjóra daga eða 32 vinnustundir og að orlofsdögum sé fjölgað í allt að 30. 

„Þrjátíu daga orlof er eðli málsins samkvæmt skýr krafa sem og frekari stytting vinnuvikunnar vegna þess að það er það sem opinberu félögin, eða opinberir starfsmenn fengu í sínum kjarasamningum og við getum ekki kyrrt látið liggja eða horft upp á það að þau fái meira en við,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.

Aðkoma stjórnvalda óhjákvæmileg eigi ekki illa að fara

Hann segir aðkomu stjórnvalda í komandi kjaraviðræðum óhjákvæmilega. Þess er krafist að verðtrygging á neytendalánum sé aflögð, álögur og skattar á launafólk séu lækkaðir og virðisaukaskattur á nauðsynjavöru. 

„Það gefur auga leið að launaliðurinn einn og sér mun ekki standa undir þeim vöruverðshækkunum og sömuleiðis líka þeim stýrivaxtahækkunum sem Seðlabankinn hefur verið að demba yfir almenning og launafólk í landinu þannig að augljóslega þurfi stjórnvöld að koma að ef ekki á illa að fara.“

Húsnæðismarkaðurinn spili stórt hlutverk í aðkomu stjórnvalda þar sem meðal annars þurfi að auka framboð á húsnæði og setja þak á leiguverð. 

Hækkaðir stýrivextir hafa næstum gert út af við ávinning lífskjarasamninganna

Ragnar segir að ákvörðun Seðlabankans um stýrivaxtahækkun í morgun undirstriki ekki einungis mikilvægi krafnanna heldur þurfi að bæta í þegar fram í sækir. Stýrivaxtahækkanir hafi verið margfalt meiri en annars staðar þrátt fyrir að verðbólga sé svipuð.

„Stór hluti af þeim ávinningi sem við náðum fyrir okkar félagsmenn í kjölfar lífskjarasamninganna, hann hefur nánast horfið á mjög skömmum tíma. Þetta munum við ekki líða,“ segir hann.