Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Við þurfum aðeins að kæla kerfið“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Hagvöxtur umfram spár er jákvæður og kallar á að Seðlabankinn sé leiðinlegur, helst myndi Seðlabankinn vilja að Íslendingar hættu að eyða peningum, segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Bankinn hækkaði stýrivexti í morgun um 0,75 prósentustig og hafa þeir ekki verið hærri í sex ár. Verðbólga er nú í auknum mæli af innlendum völdum.

Þetta er í áttunda sinn í röð sem Seðlabankinn hækkar stýrivexti og fimmta skiptið í röð sem hækkunin er hálft prósentustig eða meira. Stýrivextir eru nú 5,5% og hafa ekki verið hærri síðan árið 2016.

Þrátt fyrir að seðlabankastjóri segi að síðustu vaxtahækkanir hafi þegar haft áhrif og kælt húsnæðismarkaðinn séu enn teikn á lofti sem rökstyðji vaxtahækkanir nú.

„Við erum að sjá bara gamalkunna þensluverðbólgu. Þensla, skortur á vinnuafli, fyrirtæki hækka verðið, þannig við erum að sjá hagkerfið hitna. Við höfum áhyggjur af því að íslenska þjóðin gæti mögulega verið að ætla sér um of. Við þurfum aðeins að kæla kerfið, segir seðlabankastjóri.

Gengur hratt á sparifé

Íslendingar hafa verið duglegir að eyða sparifé sem safnaðist upp í heimsfaraldrinum og ferðaþjónustan hefur tekið hraðar við sér en búist var við. Þetta þýðir að hagvöxtur fer fram úr spám.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði tæp 6% í ár sem er tæplega 1,3 prósenta meiri vöxtur en spáð var í maí.

„Það sem við fáum á móti okkur eru góðar fréttir. Það er að segja miklu fleiri ferðamenn sem koma til landsins, öll hótelherbergi bókuð, gengur vel að selja fisk í útlöndum. Álverð er mjög hátt. Sem er mjög gott og jákvætt en felur í sér að við þurfum að vera leiðinleg,“ segir Ásgeir.

Verðbólga í auknum mæli af innlendum völdum

Verðbólguspárnar hafa versnað. Peningastefnunefnd Seðlabankans gerir ráð fyrir að verðbólga nái hámarki undir lok árs og endi í tæplega ellefu prósentum. Einkaneysla jókst um 14% milli ára á öðrum ársfjórðungi. 

„Við erum að sjá í auknum mæli innlenda verðbólgu koma fram. Við óttumst að það gæti verið meira inn í pípunum á næstu tveimur mánuðum og síðan fari hún að gefa eftir.“

Hvaða ráð hefur seðlabankastjóri fyrir fólkið í landinu?

„Helst vildi Seðlabankinn að fólk myndi hætta að eyða peningum. En við getum ekki skipað fólki fyrir. Ráðið er eins og alltaf að eiga borð fyrir báru,“ segir Ásgeir Jónsson.

Í spilaranum hér að ofan er hægt að horfa á umfjöllun um málið í kvöldfréttum, meðal annars viðtal við Kristján Þórð Snæbjarnarson forseta ASÍ.