Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Svigrúm til launahækkana mismunandi milli atvinnugreina

24.08.2022 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Ingvarsson - RÚV
Seðlabankastjóri segir erfitt fyrir sig að meta hvort svigrúm sé til launahækkana í komandi kjaraviðræðum. Svigrúmið sé þó mismunandi á milli atvinnugreina. Krónutöluhækkanir í kjarasamningum hafi enga þýðingu nema þær komi fram í raunverulegum kaupmætti.

Stéttarfélagið Efling reiknaði svigrúm fyrir beinar krónutöluhækkanir í liðinni viku og hagfræðingur stéttarfélagsins segir að hækka þurfi mánaðarlaun um rúmlega fimmtíu og tvö þúsund krónur. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir mikilvægt þegar fólk hugsi um krónur að hafa verðgildi þeirra í huga. 

„Og það er það sem við samkvæmt lögum eigum að gera. Þannig að hækkanir í kjarasamningum upp á krónur hafa enga þýðingu nema þær komi fram í raunverulegum kaupmætti. Og það er er mjög mikilvægt að það sé haft í huga og ég vona að hagfræðingurinn hafi reiknað það líka.“

Hann telur svigrúm til launahækkana mismunandi eftir atvinnugreinum því þeim gangi misvel. Hann segir verkefni kjaraviðræðna hverju sinni að finna jafnvægi á milli allra stétta.

„Og það er í rauninni lykilatriði fyrir svona litla þjóð eins og okkur að við finnum jafnvægi á milli allra stétta með hvernig við gerum kjarasamninga. En ég ætla ekki að halda því fram að ég viti hvernig það sé hægt.“

En hefur hann áhyggjur af komandi vetri kjaraviðræðna? „Bara já og nei. Ég tel að þrátt fyrir það, að við séum skynsöm þjóð og við finnum út úr hlutunum þegar á reynir.“

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV