Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Segir að þrautseigja Úkraínumanna hafi skipt sköpum

24.08.2022 - 08:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson
Þrautseigja Úkraínumanna og stuðningur bandamanna skipti mestu máli til að koma í veg fyrir að rússneski herinn valtaði yfir Úkraínu á fáeinum dögum. Þetta sagði utanríkisráðherra í viðtali við Morgunvaktina á Rás 1 nú þegar hálft ár er liðið frá upphafi innrásar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði í morgun að margir hafi búist við því í upphafi stríðs að Rússar yrðu fljótir að taka Úkraínu. Annað hafi komið á daginn.

Þrautseigja Úkraínumanna hafi skipt sköpum og stuðningur bandamanna verið mikilvægur. Sagði hún NATO-ríki beita öllum verkfærum sínum, utan beinnar þátttöku í átökunum.

„Við erum ekki að taka þannig beinan þátt í stríðinu að NATO sem slíkt sé að stíga þar inn. Þegar svo er, þá erum við að nota öll önnur verkfæri sem við höfum. Þegar um er að ræða viðhorf til þess hvað þú mátt gera í krafti valds og vopnaburðar og af þessari illsku sem blasir við okkar þá er það vissulega þannig að mann langar að geta gert meira en við notum öll þau verkfæri sem við mögulega getum enn sem komið er,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Friðrik Jónsson, sérfræðingur í varnarmálum, sagði stríðinu hvergi nærri lokið og að margir hafi ofmetið rússneska herinn. Hins vegar hafi framkoma hans og hátterni ekki komið á óvart.

„Ég held það hafi flestir búist við því að Rússum myndi sækjast þetta stríð betur úr hendi en raun varð. Það er kannski þessi tvö atriði sem komu mest á óvart. Annars vegar seigla og hugrekki úkraínsku þjóðarinnar og svo hvernig í raun og veru rússneski herinn virtist vera miklu meiri pappírstígur en maður bjóst við,“ sagði Friðrik.

Þórgnýr Einar Albertsson