Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Misþyrmingar og dráp bjarnarhúns vekja mikla reiði

24.08.2022 - 01:15
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Glæparannsókn er hafin í Mexíkó á því þegar svartbjarnarhúni í vatnsleit var misþyrmt og að lokum stytt aldur. Málið hefur vakið mikla reiði þar í landi.

Atvikið átti sér stað í bænum Castano í Coahuila-ríki, norðanvert í Mexíkó. Náttúruverndarsinni varð vitni að og tók ljósmyndir af því þegar húnninn var handsamaður, bundinn og dreginn um götur bæjarins.

Svo virðist sem nokkrir lögreglumenn hafi fylgst með athæfinu en látið það óátalið þrátt fyrir að svartbirnir séu verndaðir í Mexíkó. Náttúruverndarsinninn Arturo Islas segir húninn hafa framið þann eina glæp að koma inn í bæinn til að svala þorsta sínum.

Ríkisstjórinn Miguel Riquelme fordæmir framferði þeirra sem réðust að birninum unga og segir svartbirni táknmynd náttúruverndar í Coahuila. Náttúruverndarstofnunin Profepa hyggst höfða mál gegn þeim sem grönduðu svartbjarnarhúninum fyrir glæpi gegn líffræðilegum fjölbreytileika.