Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sérsveitin stöðvaði mótmæli ungra sjálfstæðismanna

Mynd með færslu
Sendiráðsbústaður Rússa við Garðastræti. Mynd úr safni. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglumenn stöðvuðu mótmæli Ungra sjálfstæðismanna við sendiráðsbústað Rússland í kvöld. Ungmennin voru saman komin til að mótmæla innrás Rússa í Úkraínu. Á morgun er hálft ár liðið frá innrásinni.

Vísir greindi fyrst frá mótmælunum.

Fréttastofa hefur rætt við Unga sjálftæðismenn sem voru á svæðinu. Þeir segjast hafa boðað til mótmælanna til að minna á að stríðið í Úkraínu og hörmungarnar sem því fylgja eru í fullum gangi, þó svo að dregið hafi úr áhuga Vesturlandabúa og fjölmiðla á stöðunni.

Stuttu eftir að hópurinn hafði komið sér fyrir utan við sendiráðið og málað úkraínska fánann á gangstéttina utan við bústaðinn kom lögreglan aðvífandi. Sérsveitarbíll og fjögur mótorhjól. Segja viðmælendur fréttastofu engu líkara en lögreglan hafi vitað af mótmælunum fyrir fram. Lögregla hafi gert þeim ljóst að þau væru að fremja eignarspjöll. Fréttastofa hefur ekki náð tali af lögreglu.

Ungir sjálfstæðismenn hafa boðað til málþings á morgun í tilefni þess að hálft ár er liðið frá  innrás Rússa í Úkraínu. Það hefst í Valhöll klukkan hálf sex á morgun. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra og Bryndís Bjarnadóttir stjórnmálafræðingur flytja ávörp.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV