Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fuglaskoðun vaxandi aðdráttarafl fyrir ferðamenn

Mynd með færslu
 Mynd: Valdimar Halldórsson
Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir fuglaskoðendur draumaferðamenn sem fari fjölgandi. Þegar hafa fimm vönduð fuglaskoðunarskýli verið sett upp á Norðausturlandi, það nýjast er á Skoruvíkurbjargi á Langanesi.

Skýlin eru kjörin fyrir áhugasamt fólk sem þar getur komist í návígi við fugla og önnur náttúrufyrirbrigði.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir tilganginn með skýlunum að draga athyglina að góðum fuglaskoðunarstöðum á Norðausturlandi.

Norska arkítektastofan Biotope var fengin til að greina fuglaskoðunarsvæði frá Borðeyri austur á Vopnafjörð. Langanesbyggð og félagið Fuglastígur á Norðausturlandi önnuðust uppsetningu skýlisins við Skoruvíkurbjarg. 

„Og þá fóru þeir í hvar væru áhugaverðir fuglar, hvaða fuglategundir þetta væru, hvenær væri best að sjá þær og teiknuðu svo upp tillögur að 22 svona skýlum.“ 

Við hönnun skýlanna var tekið tillit til veðurskilyrða, sólar- og vindafars. „Og metið hvaða fugla er verið að skoða, hvernig best er að komast að þeim og hvernig best sé að fara inn í skýlin og komast hjá því að trufla fuglana.“

Arnheiður segir húsin nýtt aðdráttarafl, enda sé hægt að skoða náttúrufar og norðurljósin úr húsunum. Arnheiður segir þó heilmikið verk framundan enda verkefnið nokkuð fjárfrekt.

Fuglaskoðunarfólk draumaferðamenn

Arnheiður Jóhannsdóttir segir straumönd vera lykilfugl svæðisins, en að súla og svartfugl séu áberandi við Skoruvíkurbjarg. Fuglaskoðendum fer fjölgandi meðal ferðamanna og Arnheiður segir að fuglaskoðun sé vaxandi áhugamál.

Markmiðið sé að ná til erlendra fuglaáhugamanna sem séu tilbúnir að ferðast langan veg til að sjá sinn draumafugl. 

„Þetta er svona draumaferðamaður. Hann vill dvelja lengi hjá okkur, í marga daga. Hann nýtir mikla þjónustu, kaupir sér leiðsögn og mat, gistingu. Og hann ber virðingu fyrir náttúrunni.“

Félagsskapnum Fuglastíg er ætlað að hvetja til og annast uppbyggingu fuglatengdrar ferðaþjónustu nyrðra.

Náttúrustofa Norðausturlands og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, sem nú eru Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, komu að stofnun félagsins. Fuglaskoðunarskýlin eru að stórum hluta fjármögnuð með úthlutun úr Ferðamannasjóði ferðamannastaða.