Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tankurinn líklega orðinn tómur í Meradölum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Ingvarsson - RÚV
Líklegt þykir að eldgosi í Meradölum sé lokið en þar hefur ekki orðið vart við virkni síðan í gær. Sé því lokið þarf að fylgjast með hvort land á fari að rísa á ný.

Engin kvikustrókavirkni hefur verið sjáanleg í Meradölum síðan í gærmorgun eftir að hún fór minnkandi jafnt og þétt dagana á undan. Fluglitakóði hefur verið færður yfir í gulan. Náttúruvárhópur Veðurstofu Íslands hefur þó ekki lýst yfir goslokum, þar sem enn er mögulegt að gosið taki sig upp að nýju.

Magnús Tumi Guðmundsson er prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. 

„Spurningin er, er gosinu lokið eða ekki? Þetta er svona hlutur sem við vitum aldrei fyrr en eftir á, en öll merkin eru þess eðlis að gosið sé búið, segir hann.“ 

Þessi stöðvun er frábrugðin því skyndilega stoppi sem varð við og við í fyrra.

„Það dregur úr því og svo fjarar það hægt og rólega út. Þannig þetta er tankur að tæmast. Þetta er töluvert öðruvísi en gosið í fyrra, hvernig því lauk. Það bara klipptist á það snögglega. Þannig það má kannski segja að þetta séu lokin á því gosi. Nú er tankurinn tómur, alla vega í bili.“ 

Sé tankurinn raunverulega tómur er þessu gosi, sem átti sér þá fyrri kafla á síðasta ári og seinni kafla á þessu ári, lokið. Í framhaldi þarf að fylgjast með GPS-mælingum um hvort landris hefjist á ný á Reykjanesskaga.

„Ef það byrjar að rísa aftur þá þurfum við að vera við því búin. Það þarf ekki að enda með gosi en getur gert það. Það getur verið að þetta sé kafli í lengri röð,“ segir hann. 

Samkvæmt björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík hægðist á umferð á gosstöðvunum um leið og virkni datt niður þótt þar sé enn margt um manninn. Þangað er væntanleg aukin mönnun í vikunni, á landvörðum, lögreglumönnum og sjúkraflutningamanni.