„Það var haft samband við mig í síðustu viku frá skrifstofu Antonio Guiterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og ég var beðin um að taka þetta verkefni að mér, ásamt tveimur öðrum,“ sagði Ingibjörg Sólrún í samtali við fréttastofu í dag. Hún fer til New York síðar í vikunni til að undirbúa verkefnið, og þaðan til Úkraínu. Skrifstofa framkvæmdastjóra SÞ sendi í dag frá sér tilkynningu um verkefnið.
Yfirmaður verkefnisins verður brasilíski hershöfðinginn Carlos Alberto dos Santos Cruz, en næstráðendur verða Ingibjörg Sólrún og Issoufou Yacouba frá Níger. Öll hafa þau víðtæka reynslu af alþjóðastarfi; Ingibjörg hefur unnið á vegum SÞ í Írak og Afghanistan og bæði Santos Cruz og Yacouba hafa stýrt friðargæsluverkefnum fyrir samtökin.
„Þetta verkefni verður mjög vandasamt,“ segir Ingibjörg. „Okkur er ætlað að rannsaka atburðarásina, komast eftir bestu getu að staðreyndum málsins og ekki síst að bera kennsl á hina látnu með aðstoð sérfræðinga sem verða með okkur í för.“
Áætlað er að þetta verkefni taki um mánuð, en stór hluti af undirbúningnum felst í því að tryggja öryggi sendinefndarinnar. Fangelsið er í bænum Olenivka, sem er á yfirráðasvæði rússneska hersins og aðskilnaðarsinna í Donetsk héraðinu í austurhluta Úkraínu.
Tugir úkraínskra stríðsfanga voru þar í haldi; aðallega hermenn sem höfðu varið Azovstal verksmiðjuna í borginni Mariupol í Úkraínu. Sprenguárásin var gerð 29. júlí og þar fórust tugir manna. Rússar hafa kennt Úkraínumönnum um árásina, en stjórnvöld í Kænugarði segja að Rússar hafi sprengt fangelsið til að hylja verksummerki um að fangarnir þar hafi verið pyntaðir.