Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tveir látnir og einn særður eftir skotárás á Blönduósi

Mynd með færslu
Ljósmynd af vettvangi. Mynd: RÚV
Tveir eru látnir og einn særður eftir skotárás á Blönduósi í morgun. Skotárásarmaðurinn er einn hinna látnu. Ekki fást upplýsingar um líðan þess særða, en sá var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Skotárásin átti sér stað í heimahúsi á sjötta tímanum í morgun. Tveir eru í haldi lögreglu vegna málsins.

Þetta staðfestir Birgir Jónasson, lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, í samtali við fréttastofu. Fólkið sem á í hlut eru Íslendingar, búsettir á Blönduósi. Birgir segir að von sé á tilkynningu frá lögreglunni en ekki sé unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar á sjötta tímanum til að flytja sérsveitarmenn frá Reykjavík norður á Blönduós. Beiðnin var afturkölluð skömmu eftir að þyrlan fór í loftið og var henni snúið við.

Íbúar sem fréttastofa hefur rætt við í morgun segjast slegnir vegna árásarinnar.

Tveir í haldi lögreglu

Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi vestra segir að tveir séu í haldi lögreglu vegna málsins. Þar segir að lögreglunni hafi borist tilkynning um að skotvopni hefði verið beitt gegn tveimur einstaklingum í heimahúsi á Blönduósi og að um alvarleg ttilvik væri að ræða. Lögreglan vopnaðist áður en hún fór á vettvang og annað viðbragð innan lögreglunnar var virkjað. Lögreglan þurfti þó ekki að grípa til vopna.

Í ljós kom að skotvopni hafði verið beitt gegn tveimur, einn var látinn þegar lögregla kom á vettvang og annar særður. Þá fannst meintur gerandi skotárásarinnar látinn á vettvangi. Í framhaldi var hlúð að hinum slasaða og vettvangur tryggður. Þá var lögreglunni á Norðurlandi eystra gert viðvart, en hún fer með rannsókn sakamála, og áfallateymi Rauða krossins var virkjað.

Ekki er vitað um líðan þess slasaða að svo stöddu.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV