Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Jöklaráðstefna - opinn fyrirlestur í dag

Mynd: Anton Brink / RÚV
Alþjóðlega ráðstefna Cryosphere verður sett í Hörpu eftir hádegi. Næstu daga verður greint frá nýjustu rannsóknum á afdrifumm íss og sævar í hlýnandi loftslagi jarðar. Klukkan fjögur sýnir James Balog myndefni af breytingum sem orðið hafa á jöklum síðustu ár um allan heim. Fyrirlesturinn verður opinn almenningi.

Crysophere, eða freðhvolfið, á við um allt sem er frosið á jörðinni, eins og jökla, hafís og sífrera. Faraldurinn kom í veg fyrir að ráðstefnan yrði haldin árið 2020 á aldarafmæli Veðurstofu Íslands. 

„Það er að taka saman áhrif sem meðal annars loftslagsbreytingar eru að hafa á útbreiðslu íss og snævar og hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir samfélag manna eins og talsvert er í umræðunni,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson sérfræðingur á Veðurstofunni og einn skipuleggjandi ráðstefnunnar.

Um 330 manns frá þrjátíuogþremur löndum taka þátt í ráðstefnunni sem lýkur á föstudag. 150 erindi verða flutt bæði í Hörpu og í Safnahúsinu. 

„Það koma þarna mjög þekktir vísindamenn erlendis frá sem að munu kynna allra nýjustu niðurstöður varðandi til dæmis breytingar á stóru jöklunum; Grænlandsjökli og Suðurskautsjöklinum. Og síðan hafa aðferðir til þess að greina breytingar á svona minni hveljöklum eins og jöklunum á Íslandi og fjallajöklum um alla jörð hafa tekið alveg geysilegum framförum, bara síðasta áratuginn. Þannig að við munum fá nýjustu niðurstöður um þetta efni. Síðan verður einn helsti sérfræðingur heimsins í hafísrannsóknum þarna líka til að gera okkur grein fyrir stöðu mála að því leyti og líka fólk sem hefur rannsakað hvað er að gerast við sífrerann á norðurslóðum og víðar.“

Margir þekkja verðlauna heimildamyndina Chasing Ice. Höfundur hennar James Balog flytur fyrirlestur í dag: 

„Sem er bandarískur maður sem hefur sett upp myndavélar mjög víða við jökla og fylgst með hörfun þeirra í hlýnandi loftslagi. Þetta hefur hann gert meðal annars á Íslandi og fleiri svona jökla- og fjallsvæðum á jörðinni. Og þetta er fyrirlestur sem að verður öllum opinn klukkan fjögur í Hörpu í dag.“