Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ómærð gítarhetja fellur frá

20.08.2022 - 14:00
Mynd: YouTube / YouTube
Það vekur misjafnlega mikla athygli þegar tónlistarfólk úti í hinum stóra heimi deyr. Fjölmiðlar fjalla eðlilega mest um það sem hefur verið mest í sviðsljósinu. Andlát Oliviu Newton John vakti til dæmis heimsathygli. Öllu minna var minnst á Lamont Dozier sem lést sama dag og hún, 8. Ágúst, hvað þá bandarískan gítarleikara sem dó þremur dögum síðar.

Slyngur smellasmiður

Lamont Dozier var þó hátt skrifaður um sína tíð. Hann samdi tugi dægurlaga sem nutu vinsælda á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, mörg hver í samvinnu við bræðurna Brian og Eddie Holland. Af þeim rötuðu 25 í efsta sæti bandaríska vinsældalistans meðan þremenningarnir unnu fyrir Motown hljómplötuútgáfuna í Detroit. Flest lögin fluttu Diana Ross og The Supremes og söngkvartettinn Four Tops.

Aldraður gítarleikari hverfur af sjónarsviðinu

Þremur dögum eftir andlát Oliviu Newton John og Lamonts Doziers féll gítarleikarinn Bill Pitman frá, 102 ára að aldri. Líkast til eru það einungis alhörðustu tónlistarnördar sem kannast við nafn hans.

Bill Pitman lék á gítar í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta á löngum ferli, þar á meðal sjónvarpsseríunni Bonanza, skemmtiþáttum Lucy Ball og Ironside svo örfáir séu nefndir. Hann lék einnig á hundruðum hljómplatna frá því seint á sjötta áratugnum fram á þann áttunda. Frank Sinatra, Elvis Presley og  Barbra Streisand eru meðal fjölda tónlistarstjarna sem nutu starfskrafta hans.

Einn af Mulningsvélinni

Bill Pitman var í laustengdum hópi tónlistarfólks í Los Angeles sem tók að sér að spila hvað sem var, hvenær sem var og hvort sem það kallaðist djass, blús, rokk, popp, kvikmynda- eða sjónvarpsþáttatónlist eða nánast allt  annað. Einn úr hópnum, trommuleikarinn Hal Blaine, gaf honum nafnið Mulningsvélin eða The Wrecking Crew. Þess má til gamans geta að talið er að Blaine hafi tekið þátt í 35 þúsund upptökum á ferlinum og leikið á sex þúsund smáskífum. Það er þó ósannað því að enginn var að telja!

Sömu sögu er að segja um Bill Pitman. Hann var ekkert að lyfta brúnum þótt hann væri fenginn til að spila Strangers In The Night með Frank Sinatra, Be My Baby með The Ronettes eða lagið Raindrops Keep Falling On My Head úr kvikmyndinni Butch Cassidy and the Sundance Kid. 

Það þótti varla tíðindum sæta að Pitman lék á gítar í meistaraverki Beach Boys Good Vibrations og iðulega var hann kallaður til þegar The Monkees mættu í hljóðverið. Þó eru þau vandfundin lögin þar sem mátti heyra almennilega í Pitman. Iðulega féll gítarleikur hans saman við leik annarra og drukknaði gjarnan í strengjum, ekki síst í upptökum fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti.

Fjölmenn Mulningsvél

Gítarleikararnir í Mulningsvélinni í Los Angeles voru allnokkrir. Auk Pitmans má nefna af handahófi Tommy Tedesco, Bill Aken, Barney Kessel og Glen Campbell, sem ávann sér reyndar heimsfrægð í kántrítónlistinni. Fæstir í Mulningsvélinni voru nokkru sinni nafngreindir á plötualbúmum stjarnanna og voru svo sem ekkert að leggja á minnið hver spilaði hvað. Raunar er óvíst hve margir hljóðfæraleikarar voru í þessu úrvalsliði,  en Wikipedia telur upp 82.

Ekkja Pitmans segir í New York Times að maður hennar hafi aldrei verið neitt fyrir rokkið, en það var vinnan hans að leika það eins og annað. Hann fór til dæmis að heiman klukkan sjö að morgni, var mættur í upptöku hjá Universal klukkan níu. Þaðan fór hann kannski í hádeginu, var kominn í Capitol stúdíóið klukkan eitt, spilaði inn á auglýsingu klukkan fjögur, fór á deit um áttaleytið og mætti svo í upptöku hjá Beach Boys um miðnættið.

Ekki hafna verkefni

Þannig gekk lífið fyrir sig fimm daga vikunnar. Pitman segist hafa orðið að vinna mikið því hann hafði fyrir þremur börnum að sjá og þurfti að standa í skilum með húsaleiguna.

Í kvikmynd sem gerð var um liðsfólk Mulningsvélarinnar kemur fram að það þýddi ekkert að vera vandlátur á verkefnin. Þá hætti síminn bara að hringja. Bill Pitman tekur undir þetta. Ef maður spilaði með hverjum sem var þýddi ekkert að hafna vinnu, því að fyrir aftan mann stóð einhver annar sem var meira en til í að taka verkið að sér.

Skipti um gír eftir 40 ár

Eftir að hafa staðið í þessu harki í hátt í fjörutíu ár fannst Bill Pitman komið nóg. Hann sagði skilið við Mulningsvélarlífið og hóf að koma fram á hljómleikum með stjörnum á borð við Burt Bachararch, Anthony Newly og Vicki Carr. Síðar flutti hann til Las Vegas og gekk til liðs við húshljómsveit MGM Grand hótelsins. Árið 1989 hætti hann störfum og lék aðeins einu sinni opinberlega eftir það, - á minningartónleikum um gamlan vin, Julius Wechter.

Í bókinni Conversations With Great Jazz and Studio Guitarists skrifar Jim Carlton að Bil Pitman hafi verið burðarás í Mulningsvélinni. Hann hafi verið fullkomið dæmi um hinn ómærða bandaríska tónlistarmann, sem hafi tekið þátt í fleiri hljómplötuupptökum en flestir og sjaldnast verið nefndur á nafn.  Fáir hafi átt meiri þátt í að móta hljómheim bandarískrar dægurtónlistar og hann.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV