Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Kínaher tekur þátt í heræfingum í Rússlandi

epa09726930 Russian President Vladimir Putin (L) and Chinese President Xi Jinping (R) meet in Beijing, China, 04 February 2022. Putin arrived in China on the day of the Beijing 2022 Winter Olympic Games opening ceremony.  EPA-EFE/ALEXEI DRUZHININ / KREMLIN / SPUTNIK / POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: epa
Kínverskar hersveitir búa sig undir leiðangur til Rússlands, þar sem þær taka þátt í umfangsmiklum, fjölþjóðlegum heræfingum um mánaðamótin næstu ásamt sveitum frá Indlandi, Hvíta Rússlandi, Mongólíu og Tadsíkistan, auk heimamanna. Þetta kemur fram í tilkynningu kínverska varnarmálaráðuneytisins.

Rússneska varnarmálaráðuneytið greindi frá því í júlí blásið yrði til fjölþjóðlegu heræfingarinnar „Vostok“ (Austur) dagana 30. ágúst til 5. september, en tilgreindi ekki hvaða þjóðir myndu taka þátt í henni.

Aukið og nánara samstarf stórveldanna í austri

Samband stórveldanna og nágrannaríkjanna Kína og Rússlands hefur styrkst töluvert í valdatíð forsetanna Xi Jinping og Vladimírs Pútíns. Ríkin starfa töluvert saman á sviði varnar- og öryggismála og innrás Rússa í Úkraínu hefur engu breytt um það.

Kínverjar hafa hvorki viljað fordæma innrásina né beita Rússa nokkrum þvingunar- eða refsiaðgerðum vegna hennar, og reyndar hefur Xi lýst áhuga á því að efla enn samstarf ríkjanna frekar en hitt, á öllum sviðum.

Ekkert með stöðu heimsmálanna að gera

Í tilkynningu kínverska varnarmálaráðuneytið segir að markmið hinnar sameiginlegu heræfingar sé að „auka almennt og friðsamlegt samstarf herja þátttökuríkjanna, styrkja samstarfið á sviði hernaðar- og varnarmála og auka getuna til að bregðast við hinum ýmsu ógnum,“ segir í yfirlýsingu kínverska varnarmálaráðuneytisins.

Þar kemur einnig fram að ákvörðunin um að taka þátt í þessari sameiginlegu heræfingu tengist á engan hátt þeirri stöðu sem nú er uppi í heimsmálunum.