„Þetta snerist ekki um mig heldur reiði viðkomandi“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta snerist ekki um mig heldur reiði viðkomandi“

19.08.2022 - 09:34

Höfundar

Margt andstyggilegt er sagt um stjórnmálafólk og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi hefur fengið að finna það á eigin skinni. Hún þurfti fljótt að læra að fjarlægja sig athugasemdunum og átta sig á að það væri ekki endilega verið að tala um hana heldur pólitík og ergelsi.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefur prófað ýmsa hatta og á langan og fjölbreyttan feril að baki. Hún hefur stýrt velferðarsviði Reykjavíkurborgar, rekið veitingahúsakeðju og verið forseti borgarstjórnar.  

Lóa er gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1 og segir frá ævi sinni og störfum. 

Troðfull borg af alls konar fólki 

Lóa hefur unnið ýmis störf í stjórnunar- og velferðarmálum en lærði sjónvarpsframleiðslu við Loyola-háskóla í New Orleans í Bandaríkjunum. „Ég held að þetta hafi verið ævintýragirni Breiðhyltingsins,“ segir hún. „Mig langaði í einhverja skemmtilega borg, langaði í hita og tónlist.“ 

„Ég átti frábæran tíma þar, það var æðislegt að búa þarna. Svo sogast maður inn í menninguna og borgina og það var svo margt ævintýralegt þarna.“ Þetta var í byrjun níunda áratugarins og á þeim tíma hafi borgin verið suðupottur alls kyns menningar, borgin troðfull af fólki, glæpatíðnin há með gífurlega fjölbreytta matarmenningu. „Þetta var svolítið sérstök borg. Þegar ég er þarna þá var Ku klux klan til dæmis enn þá.“ Hún tekur sem dæmi að fyrrverandi félagar í samtökunum hafi boðið sig fram til borgarstjórnarkosninga á meðan hún var í námi.  

„Það þótti ekki gáfulegt svo ég bara hlýddi“ 

Áhugi Lóu á afbrotafræði hófst á meðan námi hennar í Bandaríkjunum stóð þar sem hún þurfti að taka sér bæði aðal- og aukafag í skólanum. „Aðalfagið mitt var sjónvarpspródúsjónin. Það var rosa gaman, ég var hlaupandi á milli stúdíóa með beta-spólur.“ Hver nemandi hafi fengið leiðbeinanda til að hjálpa sér í gegnum allt ferlið og var henni ráðlagt að taka félagsfræði sem aukafag. „Ég var að hugsa um að taka leiklist en það þótti ekki gáfulegt, svo ég bara hlýddi.“ 

„Þar sogast ég inn í afbrotafræðina sem er mjög current þarna því það er svo há glæpatíðni í New Orleans,“ segir hún. „Það verður allt svo raunverulegt þegar maður er með þessar risatölur fyrir framan sig og glæpina á götunum og allt allt öðruvísi umgjörð en maður er vanur hérna heima.“ Lóa nefnir að það hafi verið mikið heimilisleysi í borginni og fjöldi fólks sem átti við geðræn vandamál að stríða hafði hvergi aðbúnað né stuðning. „Þetta er allt í bland við gríðarlega mikla eiturlyfjaneyslu. Úr þessu verður einhvers konar suðupottur sem maður fer ofan í og þá verður afbrotafræðin svo ævintýralega áhugaverð.“ 

Skiptir um stefnu á 10 ára fresti 

Lóa hefur alltaf hneigst til breytinga og er óhrædd við að skipta algjörlega um stefnu. Þegar hún kom heim frá Bandaríkjunum bætti hún við sig félagsráðgjöf og fór út í velferðarmál, stýrði öldrunarþjónustu sem og velferðarsviði Reykjavíkurborgar í mörg ár. Þau ár sem hún vann fyrir borgina við upphaf aldamóta hafi verið virkilega góð. Hún hafi fengið mörg góð ráð frá eldra fólki, til dæmis að byrja að strax spara. Það ráð sem hún tók mest til sín var að passa að vera alltaf að læra. 

„Alltaf á góðum átta til tíu ára fresti þá bara geri ég eitthvað glænýtt sem ég kann ekki baun í.“ Hún ákvað svo að fara í meistaranám í rekstrarhagfræði. Þau hjónin hafi ákveðið að það væri frábær hugmynd að stofna fyrirtæki saman en voru heilt ár að átta sig á hvers konar fyrirtæki það ætti að vera. „Ég fór beint úr velferðarmálum í viðskipti. Ég þekkti engan úr viðskiptalífinu, var alein og fannst þetta mjög fyndið.“  

Þau hafi rekið veitingahúsakeðjuna Pizza Hut í tíu ár og var hún þá komin í alþjóðleg viðskipti og þótti það mjög gaman. „Svo bara var það búið, ég ákvað að fara út úr því og bara byrja eitthvað alveg nýtt.“ Hún fór úr veitingahúsabransanum og yfir í ferðamálaiðnaðinn og áður en hún vissi af var búið að toga hana út í pólitík.  

Hélt að pólitík væri alls ekki fyrir sig 

„Það var mjög oft reynt þegar ég var ung en ég var alltaf bara nei, nei, nei, það er alls ekki fyrir mig,“ segir Lóa um að vera dregin út í pólitík. „Svo fattaði ég bara þegar þarna var komið, bæði hafði ég kannski vit og aldur til, að mig langaði í sveitarstjórnarmál. Mér finnst þau skemmtileg,“ segir hún. Allt sem snýr að fólki, öll nærþjónusta, umgjörð og innviðir heilli hana. „Ég held að skemmtilegasta ráðuneytið sé innviðaráðuneytið.“ 

Skrítið að verða allt í einu opinber persóna 

Lóa segir að enginn geti vitað nákvæmlega við hverju megi búast þegar farið er út í pólitík. „Maður þarf að vera fullur af ástríðu og áhuga því þetta er sérstakur heimur. Maður setur sig út og er þjónn fólksins.“ Það sé skemmtilegt en fyrir venjulega manneskju sem aldrei hefur verið í sviðsljósinu sé það mjög skrítið að verða allt í einu opinber persóna sem allir hafa skoðun á.  

„Maður þarf að húða sig svolítið fyrir áreitinu og leiðindunum sem eru á netinu í dag, ég lærði það mjög hratt,“ segir Lóa. Hún gaf fyrst kost á sér fyrir Viðreisn árið 2018 og flokkurinn náði góðu kjöri. „Ég var í lykilstöðu og varð hratt formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra. Það komu ýmis mál hratt í fangið á okkur, eins og braggamálið sem margir muna eftir.“ 

Bæði móðir Lóu og systir eru þekktar söngkonur, Hjördís Geirs og Hera Björk, og þær gátu gefið henni góð ráð varðandi neikvæða gagnrýni. „Maður þarf svolítið að aðskilja sig og átta sig á því að umtalið, eða lætin, snúast ekki um mann persónulega.“

„Það var margt mjög andstyggilegt“ 

Í dag tekur Lóa andstyggilegheitin ekki til sín en til að byrja með særðu athugasemdirnar. „Fyrst fannst mér þetta mjög vont. Ég hugsaði með mér: Af hverju er manneskjan að segja þetta? Hún þekkir mig ekki neitt og veit ekkert fyrir hvað ég stend.“

Hún hafi enga löngun til að svara fyrir sig þrátt fyrir að hafa viljað það fyrst. „Það var að gera mér upp alls kyns. Ég átti að vera þrællinn hans Dags og ég veit ekki hvað og hvað, það var margt mjög andstyggilegt,“ segir Lóa. „En ég var líka bara fljót að læra það að það snerist ekki um mig. Þetta snerist um reiði hjá viðkomandi út af einhverju sem bara getur verið mjög raunverulegt og ég þarf að sýna því skilning.“  

„Það er ekki verið að tala um hana Lóu, skógarbónda og borgarfulltrúa. Það er verið að tala um eitthvað allt annað, það er verið að tala um pólitík og ergelsi og þessar dramatísku fyrirsagnir sem oft eru á netinu, ég tek það ekki til mín.“ 

Var kölluð litlaust veggfóður 

Hún segist þó einstöku sinnum hafa svarað fyrir sig og nefnir sem dæmi þegar blaðamaður kallaði hana litlaust veggfóður á vegg Dags. „Allt svona, þetta er náttúrulega bara mjög skemmtilegt og þegar maður nær að aðskilja sig þá er þetta bara mjög fyndið. Allir sem mig þekkja vita að ég er ekki veggfóður. Ég er svona frekar fyrirferðarmikil kona,“ segir Lóa og hlær.  

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Þórdís Lóa var sögð þræll Dags B. Eggertssonar og falla í skugga hans

„Ég veit að ég get ekki gert allt í einu“ 

„Maður þarf að halda sýn og fókus, muna af hverju maður er á þessari vegferð.“ Hún sé í pólitík því hana langi til að breyta til og hafa áhrif. „Ég veit að ég get ekki gert allt í einu og ég veit að ég get ekki gert allt fyrir alla. Og ég veit líka að ég hef ekki endalausa peninga,“ bætir hún við. Þess vegna þurfi öllu að vera skynsamlega skipt.  

„Mín ástríða er frjálslyndi og að allir eigi sér stað. Ég er Evrópu- og alþjóðlega sinnuð og finnst mannréttindi og jafnréttindi skipta höfuðmáli. Það er mitt leiðarstef í þessu, að allt sem ég geri þarf einhvern veginn að hafa þessa þræði inn, ásamt loftslagsmálum.“ 

„Ég er bara hvatvís og vill oft taka orðið og tala“ 

Fyrir Lóu hefur það verið gífurlega þroskandi að fara út í pólitík og algjörlega ný upplifun. „Ég hef oft þurft að sitja á mér, ég er náttúrulega bara hvatvís og vil oft taka orðið og tala,“ segir hún og hlær. „Ég hef lært gífurlega mikið af því. Og hvað pólitík er holl að því leytinu til að maður þarf að læra að maður gerir ekki allt í einu.“ 

„Maður getur verið með langtímasýn og unnið að henni hægt og hljótt og breytt stórkostlegum hlutum en maður þarf að gera það í skrefum,“ segir hún. „Það er ótrúlega lærdómsríkt þegar maður er að breyta samfélagi.“ 

Margt sem borgarstjórn geti gert í hinsegin málum 

Nú standi borgarstjórn frammi fyrir risastóru verkefni næstu misserin. „Við erum nýkomin út úr Hinsegin dögum og það er bakslag, við fáum þau skilaboð mjög sterkt. Það þýðir það að við þurfum að taka þetta samtal,“ segir hún. „Við erum greinilega ekki komin lengra þegar kemur að mannréttindum og að Ísland sé fyrir alla. Við þurfum að fara í aðgerðir til að sporna við því að hér verði eitthvað bakslag á mannréttindum.“  

Það sé best fyrir alla þá sem hér búa að mannréttindi séu tryggð fyrir alla. „Þarna er eitthvað mein sem við þurfum að takast á við og það þarf umræðu.“ 

Það sé margt hægt að gera að mati Lóu. Í fyrsta lagi sé hægt að setja málið á dagskrá hjá borgarstjórn, allir geti horft á þá fundi og þá rati umræðan í fjölmiðla. „Það er opinn umræðuvettvangur, sannarlega getum við gert það.“ 

Einnig geti borgarstjórn farið af stað með verkefni sem snúa að fræðslu og umgjörð í kringum mannréttindi hinsegin fólks með sérstöku tilliti til trans fólks. „Það þarf að horfa sérstaklega til ákveðinna hópa.“  

Ástríða að breyta samfélaginu 

„Þarna finnst mér blandast, og þetta er kannski langt seilst hjá mér, í mínum bakgrunni fjölmiðlafræðin, afbrotafræðin og félagsfræðin. Þarna er smá ástríða að breyta þessu samfélagi.“ 

Hún segist vera almennt frekar glöð og ánægð í starfi. Hún eigi það auðvitað til að langa liggja undir sæng og sofa út en þegar hún er komin af stað þyki henni verkefnin skemmtileg og hefur gaman að þeim áskorunum sem mæta henni. 

Rætt var við Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur í Segðu mér á Rás 1. Hægt er að hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV hér.