Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Guðni eftir 11. sætið: „Fer bara sáttur hér í burtu“

Mynd: RÚV / RÚV

Guðni eftir 11. sætið: „Fer bara sáttur hér í burtu“

19.08.2022 - 21:01
Guðni Valur Guðnason endaði í 11. sæti í úrslitum kringlukastsins á Evrópumótinu í frjálsíþróttum í kvöld eftir eitt gilt kast sem mældist 61 metri. Hann gengur sáttur frá borði í sínum fyrstu úrslitum á stórmóti og segir að hægt sé að byggja á þessari frammistöðu

Guðni hefur keppt á þó nokkrum stórmótum en í kvöld keppti hann í fyrsta sinn í úrslitum á slíku mót. Hann segir upplifunina hafa verið skemmtilega. „Ég ætla að koma mér aftur í úrslit, það er miklu skemmtilegra að keppa í úrslitunum, það eru miklu fleiri að horfa, það er myrkur, stemming, þetta er bara hrikalega skemmtilegt.“ Guðni gerði fyrstu tvö köst sín ógild og kastaði svo 61 metra í þriðja kastinu, öll fjögur gildu köst hans á mótinu voru því yfir 61 metra en það lengsta var 61,80, það kastaði hann í undankeppninni. 

„Fyrsta kastið var bara að negla á það, ég ætlaði bara að gera mitt besta bara negla á það frá byrjun og það fór í netið, það var held ég bara fínasta kast. Annað kastið mitt það var ekkert sérstakt, reif aðeins í það og ég misstíg mig aðeins meðan ég er að snúast í hringnum og dett við það,“ segir Guðni um fyrstu tvö köstin sem urðu ógild. Hann segir þriðja kastið svo hafa verið sæmilegt. 

„Það er mun betra að labba hér í burtu með allavega eitt gilt en ekki þrjú ógild eins og á seinustu kannski þremur mótum eða eitthvað. Það er hægt að byggja upp á þessu, ég er með fjögur köst sem eru í kringum 61 metra á þessu móti og í rauninni ekkert kast sem er eitthvað yfirburðar frábært þannig ég á það ennþá inni á stórmóti.“

Í heildina segist Guðni sáttur með 11. sætið sem er jöfnun á besta árangri Íslendings í kringlukasti á EM. Nú tekur við smá hvíld og svo tæknivinna en markmiðið er að ná í lágmarkið fyrir Heimsmeistaramótið á næsta ári sem er 67 metrar. Guðni segir kringlukastið sem grein alltaf vera að verða sterkari og sterkari sem sé frábært fyrir bæði áhorfendur og keppendur sem vilji auðvitað alltaf halda áfram að bæta sig. „Þetta verður gaman að sjá og núna verður maður bara að fara í mikla tæknivinnu, rífa sig í gang og vinna þá.“

Viðtalið við Guðna í heild sinni má sjá í spilaranum hér efst á síðunni.