Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekki ljóst hve margt starfsfólk þarf á frístundaheimili

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - Rúv
Skipulagning grunnskóla- og frístundastarfs er í fullum gangi um land allt. Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir ekki liggja fyrir hvað þarf margt fólk til starfa á frístundaheimilum. Útlitið er gott á Akureyri.

Á vef Reykjavíkurborgar er óskað eftir starfsfólki við nokkur frístundaheimili. Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar segir starfsmannaveltu hafa verið allnokkra gegnum árin.

Háskólanemendur segir Helgi að séu hryggjarstykkið í mönnun og því sé beðið eftir því að stundatöflur háskólanna verði tilbúnar. Eftir það geti stjórnendur tekið til við að raða starfsfólki inn á frístundaheimilin sem eru rúmlega þrjátíu talsins.

Helgi segir endanlega stöðu liggja fyrir 25. ágúst en bendir á að umsóknir um dvöl berist iðulega í upphafi skólaárs. Það kalli á viðbótarmannskap.

Viðbúið sé í ljósi stöðu á vinnumarkaði að nokkurn tíma taki að fullmanna. Á frístundaheimilum borgarinnar er boðið upp á dvöl fyrir sex til níu ára börn frá því skóladegi lýkur og til fimm. 

Útlitið gott á Akureyri

Bjarki Oddsson forstöðumaður skrifstofu fræðslu- og lýðheilsusviðs hjá Akureyrarbæ segir að vel gangi að manna frístundaheimili þar í bæ og heilt yfir sé staðan góð.

Þó að enn vanti í örfáar stöður segir Bjarki að tekið verði á móti öllum börnum. Bjarki segir flesta sem nýta frístund í fyrsta og öðrum bekk en færri í þriðja og fjórða.

Frístundaheimili á Akureyri eru hluti skólastarfsins að sögn Bjarka, til dæmis færist skólaliðar yfir á frístundaheimili þegar kennslu lýkur en hver skólastjórnandi sér um að skipuleggja mönnun.