Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bæjarfulltrúi í Kópavogi handtekinn í Svíþjóð

19.08.2022 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd: Barði Stefánsson - RÚV
Hannes Steindórsson bæjarfulltrúi í Kópavogi og formaður félags fasteignasala hefur birt færslu á facebook þar sem hann segir frá því að hann hafi verið handtekinn og gist fangageymslur í Svíþjóð eftir drykkju og slagsmál. Í færslunni segist hann hafa ákveðið að segja frá atvikinu sjálfur vegna þess að fjölmiðlar hafi hótað „að birta lygasögur og kjaftasögur“.

Hannes var í fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og situr nú sem bæjarfulltrúi. Sjálfstæðisflokkur er í meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs ásamt Framsóknarflokki. Ásdís Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins er bæjarstjóri. Ekki hefur náðst í Ásdísi.

Í færslunni segist Hannes hafa verið edrú í tæp 11 ár en hann hafi gert mistök fyrir nokkru. „[Ég] sat einn inná veitingastað í Svíþjóð að svara tölvupóstum og símtölum, á næsta borði setjast tveir herramenn og eru að drekka. Á einhvern óskiljanlegan hátt þigg ég boð um að drekka með þeim, það endar ekki betur en svo að ég lendi í áflogum við þessa menn og við erum beðnir um að yfirgefa veitingastaðinn, stuttu seinna kemur lögreglan og fylgir okkur út af staðnum.“  Hannes segist hafa gist fangageymslu um nóttina og hafa þurft að greiða sektir bæði til ríkisins og mannana sem hann slóst við. 

 

Fjölmargir hafa skrifað athugasemdir við færsluna með hvatningar- og stuðningsskilaboðum til Hannesar. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafa hafa báðir skrifað athugasemdir. Bjarni skrifar „Gangi þér vel Hannes!“ Jón skrifar „Kæri vinur. Við höfum öll misstigið okkur á lífsleiðinni. Þú setur þetta í reynslubankann og stendur sterkari á eftir.“

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir