Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vantar fleiri fósturforeldra um allt land

18.08.2022 - 22:23
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RÚV
Fósturforeldrum fækkar en það færist í aukana að börn þurfi að komast í fóstur. Hjón sem hafa allt að þrjú börn hjá sér í senn segja það gefandi en líka erfitt.

Barna- og fjölskyldustofa hefur lagst í herferð á samfélagsmiðlum til þess að hvetja fólk til þess að gerast fósturforeldrar þar sem þeim hefur fækkað. 

„Það hefur verið fækkun á milli ára en þörf barnanna hefur aukist jafnt og þétt,“ segir Ólöf Ásta Farestveit forstjóri barna- og fjölskyldustofu. 

Það voru rúmlega fjögur hundruð og tuttugu börn í fóstri við lok síðasta árs, næstum tvö hundruð fleiri en fyrir tíu árum. Ólöf segir vanta fósturforeldra um allt land, en sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Erfitt sé að segja til um nákvæmlega hversu marga foreldra vantar.

„En okkur vantar alltaf fleiri. Það er þannig að það eru ekkert alltaf öll börn sem henta hverju fósturforeldri og fósturforeldrar eru ólíkir. Við erum að sækjast eftir alla vegana fjölskyldum sem hafa ákveðinn stöðugleika, bæði fjárhagslegan og félagslegan stöðugleika en foreldra fyrst og fremst af öllum gerðum sem geta veitt börnunum þá umönnun sem á þarf að halda,“ segir hún. 

Einkum vanti fólk sem getur tekið börn í fóstur tímabundið og í styrkt fóstur sem er fyrir börn sem hafa mikla ummönnunarþörf, glíma jafnvel við flókinn hegðunar- og tilfinningavanda og koma sum úr ótryggum aðstæðum. Umsóknir um styrkt fóstur eru meira en tvöfalt fleiri en þær voru fyrir tíu árum. 

Fjögur börn þegar mest er

„Við eigum fjögur börn, þegar mest er, eitt fósturbarn, tvö stuðningsbörn og eitt blóðbarn, ef maður getur sagt svo,“ segja Sonja Björg Írisar Jóhannsdóttir og Kolbrún Helga Margrétar Pálsdóttir sem hafa verið fósturforeldrar í rúmlega eitt og hálft ár. 

„Við erum bara að kynnast okkur sjálfum upp á nýtt. Við erum alltaf að sjá eitthvað nýtt og nýtt. Læra eitthvað nýtt um okkur sjálfar,“ segir Sonja.

Kolbrún tekur undir.

„Já og bara þessi börn eru það besta í heimi. Þau eru alltaf að kenna okkur eitthvað, mikið meira en við kennum þeim.“

Yfirlýst markmið þess að börn fari í fóstur er að þau fari að endingu aftur til blóðforeldra sinna. Sonja segir geta tekið á að vera fósturforeldri. 

„Það getur oft verið mjög erfitt tilfinningalega að vera fósturforeldri og bara einhvern veginn mjög erfitt að hafa engin réttindi, þegar allt kemur til alls.“ 

Til þess að gerast fósturforeldrar þarf að fara á fimm daga námskeið og í hæfnimat.  

„Maður þarf að fara í mjög mikla skoðun á sjálfum sér. Fjölskyldulífi, æsku og öllu. Það er smá ferli, en mjög lærdómsríkt og skemmtilegt líka,“ segir Sonja. 

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir