Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ungmenni í Japan hvött til að drekka meira

18.08.2022 - 22:14
Erlent · Áfengi · Japan · Sake
Mynd með færslu
 Mynd: picjumbo.com - CC0
Skattayfirvöld í Japan vilja að ungmenni landsins drekki meira áfengi. Kynslóð ungs fólks drekkur mun minna en foreldrar sínir og aðrar kynslóðir sem á undan komu. 

Þetta hefur mikil áhrif á einn stærsta skattstofn Japana um árabil, áfengisskattinn. Tekjur af áfengisgjöldum í Japan námu um 5% heildartekna ríkissjóðs þar í landi árið 1980 en í dag nema tekjurnar aðeins 1,7% af heildartekjum, að því er fram kemur í frétt BBC.

Því hafa yfirvöld blásið til hugmyndasamkeppni um bestu lausnina til þess að snúa þróuninni við. Markmiðið er að gera áfengisdrykkju móðins á ný og reyna þannig að blása áfengisiðnaðinum byr undir báða vængi. 

Stjórnvöld hafa beðið fólk á aldrinum 20 til 39 ára að stofna frumkvöðlafyrirtæki til þess að keyra upp eftirspurn eftir japönsku sake, viskíi, bjór eða víni. 

Í japönskum fjölmiðlum má greina misgóðar viðtökur við herferð skattayfirvalda. Margir segja að þarna séu stjórnvöld að ala upp ósið í yngstu kynslóð landsins. Aðrir taka þessu fagnandi og sú hugmynd hefur litið dagsins ljós að láta þekktar leikkonur þjóna til borðs á börum landsins, þá með hjálp gervigreindar. 

Þátttakendur hafa frest þar til í september til þess að skila inn hugmyndum.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV