Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrír ítalir játuðu utanvegaakstur norðan Vatnajökuls

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhallur Þorsteinsson
Þrír ítalskir ferðalangar hafa játað á sig ólöglegan utanvegaakstur á í það minnsta þremur stöðum á eyðisöndum norður af Vatnajökli fyrr í þessari viku. Lögreglan á Húsavík rakti glæpinn til þremenninganna, sem eiga von á háum sektum fyrir vikið.

Fréttablaðið greinir frá þessu. 

Þórhallur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, birti á þriðjudag myndir á Facebook af ljótum ummerkjum um utanvegaakstur á Kverkfjallaleið og víðar, meðal annars í viðkvæu landi á Brúardölum. Í samtali við fréttastofu sagði Þórhallur þetta með því verra sem hann hefði séð á þeim 30 árum sem hann hefur haft afskipti af utanvegaakstri á hálendinu.

Sjá einnig: „Með því verra sem ég hef séð“

Í Fréttablaðinu segir að lögreglan á Húsavík hafi haft uppi á meintum ökuníðingum í ferðaþjónustunni í Möðrudal sama dag og upp komst um spjöllin sem þeir ollu. Þeir hafi játað sök sína á staðnum, enda hafi hjólbarðarnir á einum bíl þeirra rennt styrkum stoðum undir grunsemdir lögreglu.

Haft er eftir Hreiðari Hreiðarssyni aðalvarðstjóra að þremenningarnir hafi ekki átt sér neinar málsbætur og eigi hver um sig allt að 250.000 króna sekt yfir höfði sér. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV