„Ég sagði engum frá þessu“

Mynd: Friðrik Agni Árnason / Aðsend

„Ég sagði engum frá þessu“

18.08.2022 - 09:05

Höfundar

„Alltaf þegar Menningarnótt kemur fæ ég pínu kvíðahnút. Ég er búinn að vinna mig í gegnum þetta áfall en maður gleymir ekki svona,“ segir Friðrik Agni Árnason dansari og verkefnastjóri. Þegar hann var tólf ára lenti hann í skelfilegum atburðum sem ollu niðurrifi og skömm. Í dag hefur hann unnið sig í gegnum áfallið og notar til þess meðal annars skrif og opinskáa tjáningu.

Friðrik Agni Árnason, dansari, skáld og verkefnastjóri, viðurkennir að vera forfallinn rómantíker. Hann les mikið og er núna að blaða í gegnum Hroka og hleypidóma eftir Jane Austen en tímir ekki að klára. Hann þekkir þó söguna vel. „Ég elska myndina sem kom út 2005, hún er algjörlega uppáhaldsmyndin mín. Ég get alltaf horft á hana þegar mig langar bæði að hlæja og gráta,“ segir Friðrik glettinn í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. „Þegar ég var unglingur fannst mér rómantík mjög hallærisleg en eftir því sem ég verð eldri er ég farinn að sætta mig að vera svona hopeless romantic.

Friðrik er Árnason og var skírður nafni sínu skömmu eftir fæðingu. Móðir Friðriks er indversk að uppruna og eldri systir hans fékk millinafnið Nadira, en hann ekki neitt. Hann tók því sjálfur upp nafnið Agni árið 2015. „Ég var alltaf að spá í að finna mér nafn sem ég gæti tengt við og eftir rannsóknarvinnu fann ég Agni sem er indverskur guð eldsins sem tengir mannfólk við guðina og hjálpar þeim að finna eldsinn, sem gæti þýtt að finna ástríðuna sína,“ segir Friðrik Agni sem fann að nafnið passaði sér vel. „Agni er líka íslenskt svo þarna er ég með bæði.“

„Ég vildi vera eins og vinir mínir sem voru íslenskir krakkar“

Á þennan hátt heiðrar hann blönduna íslensku og indversku sem hann hefur í blóðinu en sem barn var hann ekkert alltaf sáttur við hana. „Ég get ekki sagt að ég hafi beint verið stoltur eða ánægður með það. Ég vissi að ég væri aðeins öðruvísi því mamma var frá öðru landi en ég vildi eiginlega ekki mikið tala um það. Ég vildi eiginlega vera bara 100% íslenskur,“ segir Friðrik.

Hann tók líka eftir því þrátt fyrir ungan aldur að umræðan um Indland væri ekki alltaf jákvæð. Þá var talað um fátækt og vosbúð sem margir byggju við þar í landi en Friðrik vildi ekki tengja við slíkar aðstæður. „Ég vildi bara vera eins og hinir vinir mínir sem voru íslenskir krakkar,“ segir Friðrik og bætir við að það hafi breyst. Í dag þykir honum vænt um blandaðan uppruna sinn. „Þegar maður verður eldri og áttar sig á lífinu, aðalega síðustu tíu ár hef ég verið að faðma meira þennan hluta af mér og kafa betur í hann.“

Fannst á tröppum fyrir utan barnaheimili á Indlandi

Indverska fjölskyldu sína þekkir hvorki Friðrik né móðir hans. Hún fannst á tröppum fyrir utan barnaheimili skammt frá Bombay þegar hún var aðeins nokkurra vikna. Henni fylgdu engar upplýsingar. „Hún var tekin inn á þetta barnaheimili og ættleidd til Íslands,“ segir Friðrik. Það var þýsk hjúkrunarkona, amma Friðriks, sem ættleiddi móður hans, Mayu, þegar hún var við störf á Íslandi. Friðrik á því þýska ömmu og indverska móður, „og ef ég ætla að gera þetta enn flóknara þá er amma ekki þýsk heldur frá Tékkóslóvakíu. Hún var þýskur Tékki en við skulum bara segja að hún sé þýsk en hún býr núna í Ungverjalandi.“

Byrjaði að skrifa ljóð og ástarfbréf sex ára

Friðrik er mjög opinn með sjálfan sig og tilfinningar sínar og deilir hann hugðarefnum sínum gjarnan með vinum og fylgjendum á samfélagsmiðlum. Hann viðurkennir að eiga erfitt með að vera ekki persónulegur. „Ég nota skrifin mikið til að tjá mig, ég hef alltaf verið þannig,“ segir hann. „Ég byrjaði að skrifa ljóð og ástarbréf þegar ég var sex ára og finnst þetta góð leið til að tjá hvernig mér líður.“

Á þennan hátt brúar hann bilið á milli sín og annarra. „Mér finnst skipta máli að líða eins og við séum einhvern veginn tengd því ég held við séum oft að upplifa sömu hlutina, en það eru ekkert allir að tala um það,“ segir hann. „Ég held við höfum gott af því að vera pínu varnarlaus.“

Kynntust á Einkamál.is og hittust á Kaffibarnum

Friðrik og eiginmaður hans hafa verið saman síðan hann var 18 ára. „Ég hitti manninn minn árið 2006 á Kaffibarnum. Ég var alls ekki að leita, eða ég var pottþétt að leita að ást án þess að fatta það en ég var ekki að leita að sambandi í þeim skilningi sem sambönd eru. Það að búa með einhverjum eða eiga hversdagslíf í sambandi var ekki í mínum huga.“

Á þessum tíma var Friðrik á leið til Ástralíu þar sem hann ætlaði að halda áfram að æfa samkvæmisdansa og var ekki í rómantískum hugleiðingum en eitthvað breyttist þegar hann sá „þennan skeggjaða mann,“ sem blasti við honum.

Þeir höfðu verið að tala saman áður í gegnum internetið en ekki hist í eigin persónu. „Þetta var áður en Tinder og Grindr var til en þá var Einkamál.is. Við kynntumst fyrst þar og vorum að spjalla,“ rifjar hann upp.

„Ætli hann sé skrýtinn streit dúddi sem var að plata litla hommann?“

Systir hans starfaði á þeim tíma sem barþjónn á Kaffibarnum og hann ákvað að lauma því að skeggjaða manninum að hann yrði þar þetta kvöld. Hann hafi þá svarað að kannski yrði hann þar líka. Og þarna var hann.

„Ég er með frænku minni og hann með sínum vinum. Hann er ekki beint útlitslega mín týpa á þessum tíma, ég var meira svona eldri menn í jakkafötum en hann var bara í Nirvana hljómsveitabol, slitnum buxum, strigaskóm og hermannajakka með ógeðslega mikið skegg og mikið hár,“ segir Friðrik.

Davíð, eiginmaður Friðriks, var á þessum tíma að læra á verkfræði og hann spilaði á bassa í þungarokkshljómsveit. Í smá stund datt Friðriki í hug að þessi maður væri ekki hinsegin heldur að spila með sig. „Ætli hann sé skrýtinn streit dúddi sem var eitthvað að plata litla hommann til að... ég veit það ekki!“

„Þá fann ég svona rafmagn“

En kvöldið leið og Friðrik fann að Davíð var mikið að gefa sér auga. Og honum leist líka vel á Davíð þrátt fyrir skeggið og hljómsveitarbolinn. „Það voru augun hans sem voru falin undir þessum augabrúnum og mikla skeggi. Hann er með skærblá augu sem létu mig vera svona, hey, það er eitthvað þarna,“ rifjar hann upp.

Loks stóð Friðrik upp, gekk að manninum og tilkynnti að hann væri að fara annað. „Ég sagði honum að ég ætlaði á Kaffi Kósý sem var pínulítill gay staður í Austurstræti og hann bara ókei, ég kem bara með þér. Ég var alveg: en það er hommastaður! Og hann bara: Já, ég veit það.“

Þeir gengur saman niður Austurstræti og Friðrik fann hvernig Davíð tók í hönd hans með því að krækja saman litla fingri sínum við hans. „Þá fann ég svona rafmagn,“ rifjar hann upp. „Þetta var fyrsta kvöldið. Svo vatt það upp á sig en ég var að flytja til Ástralíu.“

Hræddur um að missa af tækifæri til að elska

Davíð stakk upp á því að koma með Friðriki til Ástralíu en honum þótti það aðeins of mikið á þeim tímapunkti. Hann fór því einn en þeir héldu sambandi allan tímann. „Ég er úti í hálft ár, svo líður að jólum og ég finn eitthvað. Það var eitthvað þarna og ég var orðinn svo hræddur um að ég væri að missa af mínu tækifæri til að elska og fara í samband,“ segir Friðrik sem tók ákvörðun þegar hann var nýorðinn tvítugur um að koma heim og gefa sambandinu séns.

„Hann er alltaf Dabbinn minn“

„Ég var ungur en ég held ég hafi alltaf verið pínu tilfinninganæm manneskja. Ég veit ekki hvort ég geti kallað þetta þroska, en ég hlusta á tilfinningar mínar, og ég gerði það þarna“ segir hann. Og þarna tók hann ákvörðun sem hann sér ekki eftir. „Ég er mjög feginn því þetta er sennilega besta ákvörðun sem ég hef tekið. Þetta samband við manninn minn er mér rosalega kært,“ segir hann.

Davíð Rósinkrans, eiginmaður Friðriks, er afar ólíkur honum en Friðrik vill hann alveg eins og hann er. „Hann má vera í hverju sem er, með hvaða hár sem er og með eins mikið skegg og hann vill, hann er alltaf Dabbinn minn.“

„Hann er alltaf sá sem ég get leitað til“

Davíð er frá Hvanneyri og foreldrar hans eru búsett þar. Þeir giftu sig árið 2014 í sveitinni Borgarfirði eftir að Friðrik fór á skeljarnar. Hann hafði fengið hugljómun um að hann vildi stíga það skref með Davíð þegar þeir bjuggu saman í Stokkhólmi.

„Það var margt óljóst í mínu lífi, ég var ekki beint með fasta vinnu en ég prófaði að reka veitingastað og var ekki að fíla það. Ég fór að kenna dans og það var næs en ég var ekki með neitt fast,“ rifjar hann upp. Davíð var að vinna sem verkfræðingur en Friðrik hafði meiri tíma til að hugsa og vera í tengslum við tilfinningar sínar. „Ég fann að hvað sem gerist í mínu lífi, allt rótleysið og leitin, þá er hann alltaf sá sem ég get leitað til. Ég get treyst á hann og hann getur treyst á mig. Af hverju ekki að festa það með vinum okkar og fjölskyldu og fagna því að hafa fundið þetta, þessa festu í lífinu?“ Þetta var inntakið í bónorði Friðriks og Davíð sagði auðvitað já.

Mynd með færslu
 Mynd: Friðrik Agni Árnason - Aðsend
Friðrik og Davíð giftu sig í Borgarfirði árið 2014

Sagði engum frá

Friðrik kennir dans og skrifar eins og fram hefur komið. Hann hefur gefið út ljóðabók á Storytel og hann stefnir á frekari skrif í framtíðinni. Á Menningarnótt á laugardag stendur hann fyrir danskennslu eins og hann er vanur á hátíðisdögum í miðbænum. En hann á í aðeins erfiðu sambandi við Menningarnótt því það var þá sem hann lenti í skelfilegum atburði aðeins tólf ára.

„Ég lenti í líkamsárás, kynferðisofbeldi. Það er eitthvað sem er vendipunktur í mínu lífi en frá því ég var ungur skildi ég ekki hvað gerðist og ég sagði engum frá þessu. Ég náði ekki að tala um það og ég náði að fela þennan viðburð þar til ég var sextán ára eða eitthvað svoleiðis.“

Mikilvægt að tala um það sem er erfitt

Þá var hann aftur beittur kynferðislegu ofbeldi sem varð til þess að hann ákvað að opna sig og tala líka um það sem gerðist þessa örlagaríku Menningarnótt líka fjórum árum fyrr. „Þá hefst alls konar vinna, ég var sendur til barna- og unglingasálfræðings og næringarfræðings líka því þá var ég með átröskun,“ rifjar Friðrik upp. „Út af þessu áfalli og ofbeldi sem ég verð fyrir verða þessi unglingsár mjög mótandi.“ Mögulega megi rekja ástæður þess hve opinn hann er og leitandi til þessara atburða. „Ég vil bara tala um hluti sem eru erfiðir því það hefur hjálpað mér.“

Hélt hann ætti skilið að þetta kæmi fyrir sig

Nú styttist í þennan dag sem enn situr í Friðriki. „Alltaf þegar Menninganótt kemur fæ ég pínu kvíðahnút. Ég er búinn að vinna mig í gegnum þetta áfall en maður gleymir ekki svona. En maður þarf einhvern veginn að rísa upp og yfir svona viðburð, sjá hann sem hluta af fortíðinni og fyrirgefa,“ segir hann.

En það tók hann tíma að komast á þennan stað. „Ég var lengi að burðast með þetta einn á ótrúlega mótandi árum, tólf, þrettán, fjórtán, fimmtán, sextán og sautján ára. Ég hélt einhvern veginn að ég ætti skilið að þetta kæmi fyrir mig og þegar þetta gerist aftur þegar ég verð 16 ára þá er ég bara já, er ég manneskja sem kallar yfir sig svona hluti? Er það eitthvað sem ég er að gera, er eitthvað við mig sem lætur fólk vilja gera svona hluti við mig?“

„Þá getur maður jafnvel verið að opna huga einhvers annars“

Við tók mikil vinna með sálfræðingi sem Friðrik hittir enn. „Maður er aldrei búinn að vinna í sjálfum sér þegar maður byrjar. Allar manneskjur verða einhvern tíma fyrir áfalli, þú getur ekki gengið í gegnum lífið án þess að eitthvað komi fyrir þig. Ég held að ástæðan fyrir því að margir eigi erfitt með sjálfan sig, séu að glíma við þunglyndi, fara í kvíða og leita í vímuefni séu óunnin áföll. Ég held það sé ótrúlega mikilvægt að fólk opni sig og talli um þau og ef maður þorir, tala um þau opinberlega. Þá getur maður jafnvel verið að opna huga einhvers annars.“

Hann ótrekar mikilvægi þess að byggja brýr með tjáningu. „Við erum öll mannfólk og erum að reyna að gera okkar besta, vera góðar manneskjur. Fyrir mér er þessi tenging við fólk ofboðslega mikilvægur hluti þess að vera manneskja og upplifa lífið. Það er bara mín leið til að díla við þetta.“

Huga mögulega að barneignum

Framtíðin er björt hjá Friðriki og Davíð sem eru farnir að velta fyrir sér möguleikanum á að eignast börn saman. „Í okkar stöðu er það ákveðinn kostur að við getum forgangsraðað þessu, við förum ekki í þetta verkefni fyrr en við erum tilbúnir,“ segir hann. Þegar þar að kemur verði börnin og fjölskyldulífið í fyrsta sæti. „Við erum farnir að tala um þetta á alvarlegri nótum svo það getur vel verið að það sé að fara að gerast eitthvað í því, en það er rosalega mikið af börnum í kringum okkur.“

Systir Friðriks og kona hennar eiga fjögur börn saman og þeir Friðrik og Davíð eru guðforeldrar þeirra alla. Auk þess eru þeir guðforeldrar stúlku sem vinkona þeirra á. „Það eru alveg börn í okkar lífi,“ segir Friðrik.

Það er nóg fleira fram undan hjá Friðriki sem ætlar á skólabekk í Háskóla Íslands í haust en hann heldur líka áfram að tjá sig á miðlunum, dansa og skrifa.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Friðrik Agna Árnason í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Hún stóð upp við rimlana og hvíslaði: mamma“