Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Dagur útilokar formannsframboð í haust

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson/Kristin - RÚV
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlar ekki að bjóða sig fram til formennsku í Samfylkingunni þegar flokkurinn heldur landsfund sinn í október. Þetta fullyrðir hann í viðtali við Fréttablaðið í dag. Í Morgunblaðinu er greint frá því að Kristrún Frostadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, muni að líkindum tilkynna formannsframboð á fundi sem hún ætli að halda með stuðningsfólki sínu á föstudag.

Þau Kristrún og Dagur hafa verið nefnd sem líklegustu arftakar Loga Einarssonar í formannsstólnum, en hann hyggst láta af embætti í haust. Í Fréttablaðinu segist Dagur hafa skynjað mikinn stuðning og fólk kalla eftir nýrri ríkisstjórn sem mynduð yrði „frá vinstri yfir á miðjuna svipað og í Reykjavík.“

Hann sé hins vegar að hefja nýtt kjörtímabil í borginni og eigi ekki sæti á þingi. Þess vegna þætti honum langsótt að bjóða sig fram til formennsku í flokknum. Aðspurður hvort hann útiloki formannsframboðið alveg, svarar hann afdráttarlaust játandi. Hann útilokar þó ekki að hann bjóði sig fram til þings í næstu kosngingum, en segist heldur ekki stefna sérstaklega að því.

Kristrún staðfestir fundarboð en segir ekkert um efnið

Í frétt Morgunblaðsins segir að Kristrún Frostadóttir hyggist efna til fundar með stuðningsfólki sínu á föstudag og að talið sé að hún muni þar tilkynna framboð sitt til formennsku. Í svari við fyrirspurn blaðsins um þetta staðfestir Kristrún að boð um fund muni berast frá henni á föstudag, en tjáir sig ekki um efni fundarins.