Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stuðningur við lífskjarasamninginn að mestu skilað sér

17.08.2022 - 19:21
Blaðamannafundur vegna stöðu í kjaraviðræðum.
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - Fréttir
Aðilar vinnumarkaðarins segja lífskjarasamninginn hafa skilað kjarabótum til launafólks. Flest loforð ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningsins voru uppfyllt á tímabilinu, en ekki hefur tekist að halda verðbólgu niðri og íbúðaverð er í hæstu hæðum. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins bendir á að kaupmáttur hefur hækkað á samningstímabilinu. 

Lífskjarasamningurinn að renna út

Kjarasamningar verða lausir í vetur. Lífskjarasamningurinn, sem nær til yfir 100.000 launþega í stærstu stéttarfélögum landsins, rennur einnig út í haust.

Lífskjarasamningurinn var undirritaður í apríl 2019. Hann byggðist meðal annars á aðkomu ríkisins, sem kynnti 45 aðgerðir til stuðnings honum. En hverju var lofað, og hvað hefur verið efnt?

Markmiðin voru háleit; til að mynda lengra fæðingarorlof, lægri tekjuskattur, auknar barnabætur og auðveldari íbúðakaup.
Fæðingarorlof hefur verið lengt í tólf mánuði, tekjuskattur launalágra lækkaður og skerðingarmörk barnabóta hækkuð. 
Aftur á móti hefur staðan í húsnæðismálum sjaldan verið verri, en íbúðaverð hefur hækkað um rúm 25% á einu ári og raunverð húsnæðis hefur ekki verið hærra síðan um aldamót. 

Til stóð að taka markviss skref til afnáms verðtryggingar á lánum og ráðast í mótvægisaðgerðir samhliða því, og skoða að fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölu. Það hefur ekki skilað sér markvisst. 

„Eins og staðan er akkúrat núna, þá þurfum við að bregðast meira við aðgerðum á húsnæðismarkaði. Það stendur út af aðgerðir varðandi verðtryggingu og vaxtastig í landinu, vextir hafa verið að hækka núna að undanfarið og það hefur verið að taka sinn toll í dag og lendir mikið á heimilum landsins,“ segir Kristján Þór Snæbjarnarson, forseti ASÍ.

Kaupmáttur hækkað á tímabilinu

En hverju hefur lífskjarasamningurinn skilað? „Hann hefur skilað þeim launahækkunum til fólksins sem um var samið og hefur tryggt að kaupmáttur launa hefur aukist á undanförnum árum, þó að við séum að sjá núna að kaupmáttur launa er að dragast saman vegna hárrar verðbólgu,“ segir Kristján Þór. 

Eitt af meginmarkmiðum samningsins var að standa vörð um kaupmátt launa og stuðla að lítilli verðbólgu og lægri vöxtum. Það gekk vel á fyrir hluta samningstímans, og kaupmáttur launa er enn mikill, þrátt fyrir mikla verðbólgu. Kaupmáttur var hærri en nokkru sinni fyrr í byrjun árs, en hefur minnkað í sumar.

„Við sjáum að það er kaupmáttaraukning yfir allt kjarasamningstímabilið, frá því í mars-apríl 2019 og við sjáum að meðaltali er þetta um 7% kaupmáttaraukning sem við sjáum hjá öllum hópum en ennþá meiri hjá lágtækjuhópum þar sem þetta nær í kringum 20%,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífssins. Þessi hækkun sé þrátt fyrir „Og það er betri árangur en nokkurt okkar þorði að vona,“ segir Halldór Benjamín.

Verðbólgan bítur

Miklar vaxtahækkanir á árinu hafa hækkað greiðslubyrði heimila af húsnæðislánum um tugi þúsunda á mánuði, sem rýrir kaupmátt ásamt hækkandi verðlagi. Líklegt er að kaupmáttur haldi áfram að minnka á næstu mánuðum þar sem verðbólga er áfram mikil og engar samningsbundnar launahækkanir á döfinni.

„Með átaki eigum við að geta náð verðbólgu niður og það er það sem er mest um vert fyrir fyrirtækin og launafólk í landinu,“ segir Halldór Benjamín.