Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stóraukið fylgi við Hægri flokkinn í Noregi

17.08.2022 - 05:34
epa08408525 Norway's Prime Minister Erna Solberg speaks during the Government's press conference on reopening society after the coronavirus (Covid-19) situation in Oslo, Norway, 07 May 2020.  EPA-EFE/Fredrik Hagen  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB SCANPIX
Hægri flokkurinn nýtur langmests fylgis meðal norskra kjósenda um þessar mundir og er stærri en báðir stjórnarflokkarnir til samans, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Norstat fyrir norska ríkisútvarpið NRK og Aftenposten, en Verkamannaflokkurinn, sem nú er við stjórnvölinn, heldur áfram að tapa fylgi.

Um 30 prósent þeirra sem afstöðu tóku sögðust styðja Hægri flokkinn undir forystu Ernu Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra. Hefur fylgið ekki mælst meira síðan í ársbyrjun 2014.

Fylgi Verkamannaflokksins er hins vegar komið niður 19.4 prósent samkvæmt þessari könnun, sem gerð var dagana 9. - 14. ágúst. Flokkurinn hefur aldrei áður mælst með svo lítið fylgi í könnun sem gerð er fyrir norska ríkisútvarpið segir á vef NRK, og Norstat hefur heldur aldrei fyrr mælt jafn mikinn mun á fylgi þessara tveggja flokka.

Leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, myndaði minnihlutastjórn ásamt norska Miðflokknum eftir þingkosningar haustið 2021. Samanlagt hafa flokkarnir 76 af 169 þingmönnum Stórþingsins í sínum röðum og þurfa því ætíð stuðning minnst eins flokks til viðbótar til að koma málum í gegn.