Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Spítalinn fer í þrot verði ekki brugðist við sem fyrst

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Staðan hefur aldrei verið jafn þung á Landspítala og í sumar. Starfsfólk vantar á öllum vígstöðvum. Runólfur Pálsson, forstjóri spítalans segir að ef ekki verði brugðist við sem fyrst fari spítalinn í þrot. 

Viðvarandi álag hefur verið á Landspítala síðustu ár og þá sérstaklega á bráðamóttökunni. Staðan hefur þó aldrei verið jafn slæm og í sumar, að sögn Runólfs. „Helsta ástæðan fyrir því er mannekla. Við urðum að koma fólki í frí. Því það hefur verið takmarkað hvað við höfum getað gefið starfsfólki kost á sumarleyfi síðustu tvö ár vegna heimsfaraldursins.“

Þarf að mennta fleiri

Hann segir að erfitt sé að bregðast við með skjótvirkum aðgerðum. Staðan sé alvarleg og helsta áskorunin í heilbrigðisþjónustu sé að tryggja nægt starfsfólk til að sinna vaxandi auknum verkefnum á komandi árum. „Við þurfum að mennta fleiri með einhverjum hætti og tryggja að fólk haldist í starfi. Það hefur líka verið vandamál. Ef að mannekla fær að hreiðra um sig þá skapast vítahringur ef verkefnin eru enn þá óhófleg.“

Sárvantar fleiri hjúkrunarfræðinga

Manneklan er mest á meðal hjúkrunarfræðinga en fer einnig vaxandi í röðum lækna. Sífellt fleiri íslenskir nemendur mennta sig í faginu erlendis en Runólfur segir að það dugi ekki til. Fjölga verði nemendum við háskólana hérlendis og leita nýrra leiða,  á borð við hermikennslu, sem er vaxandi leið til að þjálfa færni og hægt er að nota hana allt árið. Hann segir ekki sjálfgefið að fara þessa leið en hugsa verði út fyrir hinn hefðbundna ramma. Þá þurfi að bæta vinnuaðstæður og gera Landspítalann að eftirsóknarverðum vinnustað. 

„Niðurstaðan er einfaldlega sú að við munum fara í þrot með þennan mannafla ef við finnum ekki lausnir.“