Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segja „skemmdarverkamenn“ ábyrga fyrir árás á Krímskaga

17.08.2022 - 05:49
Smoke rises over the site of explosion at an ammunition storage of Russian army near the village of Mayskoye, Crimea, Tuesday, Aug. 16, 2022. Explosions and fires ripped through an ammunition depot in Russian-occupied Crimea on Tuesday in the second suspected Ukrainian attack on the peninsula in just over a week, forcing the evacuation of more than 3,000 people. (AP Photo)
Dökkan reyk leggur upp af skotfæra- og sprengjugeymslu rússneska hersins á Krímskaga Mynd: AP
Nokkrar öflugar sprengingar urðu í bækstöðvum rússneska hersins á Krímskaga í gær, viku eftir að Úkraínuher eyðilagði nokkrar rússneskar herþotur í sprengjuárás á sömu slóðum. Rússar segja skemmdarverkamenn hafa verið að verki í gær, þegar sprengingar urðu í skotfæra- og sprengjugeymslu rússneska hersins á Krímskaganum, sem leiddi til þess að eldur kviknaði í nálægu orkuveri og umtalsverðar skemmdir urðu á nálægri járnbraut.

Úkraínumenn afneita allri ábyrgð á atburðum gærdagsins. Mykhailo Podolyak, ráðgjafi Úkraínuforseta, hefur hins vegar lýst þeim sem „aðgerðum til afléttingar hernaðaryfirráða“ og þar með ýjað að því að sprengingarnar í skotfærageymslunni hafi ekki verið neitt óhapp, þótt Úkraínuher hafi ekki staðið þar að baki. Þá hefur verið látið að því liggja, að úkraínskir andófsmenn á Krímskaga, sem njóti stuðings stjórnvalda í Kænugarði, hafi verið að verki.

Rússar hernámu Krímskaga 2014. Hinn rússneski héraðsstjóri Krímskaga segir þrjá hafa slasast í skemmdarverkum gærdagsins og að um 2.000 manns hafi þurft að yfirgefa heimili sín tímabundið vegna þeirra.