Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nokkuð um að fólk virði ekki lokanir á gosstöðvum

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Fáir lögðu leið sína að gosstöðvunum í nótt vegna veðurs. Nokkur umgangur var við ljósaskiptin, en Steinar Þór Kristinsson, svæðisstjóri hjá björgunarsveitinni Þorbirni, segir að engin vandræði hafi verið á gestum. Í gær var veður hins vegar gott og fjölmennt við gosstöðvarnar.

Það var þónokkur umferð, en ég held að þetta hafi gengið nokkuð vel,“ segir Steinar. Hann segir að björgunarsveitir hafi farið í nokkur útköll í gær, þótt ekkert meiriháttar hafi komið upp á.

Lokað verður að gosstöðvunum í Meradölum í dag vegna veðurs en gul veðurviðvörun er í gildi fyrir suðvestanvert landið og miðhálendið. Steinar segir að nokkuð sé um að fólk virði ekki lokanir á gosstöðvunum.

„Ef það er lokað hlið og raðað grjóti á veginum, þá þýðir það að það sé lokað. Það þýðir ekki að það megi velta grjótinu í burtu og troða þér í gegn. Við fréttum af bílum sem gerðu það í gær,“ segir Steinar Þór Kristinsson.