Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Langstærsta kókaínmál Íslandssögunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Fjórir eru í haldi vegna stærsta kókaínsmáls Íslandssögunnar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði upptæk tæplega hundrað kíló af kókaíni.

Lögregla hefur lagt hald á níutíu og níu komma tuttugu og fimm kíló af kókaíni í langstærsta kókaínmáli Íslandssögunnar. Þrír voru úrskurðaðir í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, til fjórtánda september, vegna rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fjórði maður var einnig í gæsluvarðhaldi en hefur verið færður í fangelsi vegna annarra mála. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru mennirnir ekki þekktir og eiga sér ekki stórfellda afbrotasögu. Efnið var falið í timbursendingu í gámi. Það fannst fyrst í Hollandi og lagði lögregla svo hald á það hér. 

Efnið var falið í vörusendingu á leið til landsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu var það falið í timbursendingu í gámi. Það hafi fyrst fundist í Hollandi og svo gert upptækt hér. Aldrei hefur verið lagt hald á jafn mikið af kókaíni hér á landi. 

Þetta er sex sinnum meira en mesta magn kókaíns sem hefur verið lagt hald á hingað til. Það voru sextán kíló sem fundust í ferðatöskum í Keflavík árið tvö þúsund og tuttugu. Þrír menn voru dæmdir í því máli. 

Ætla má að götuvirði efnanna hlaupi á milljörðum. Efnið fannst  í samvinnu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunnar á Suðurnesjum, ríkislögreglustjóra og héraðssasóknara í rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi. Að sögn lögreglu miðar rannsókn vel en ekki fást frekari upplýsingar um málið.