Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fréttir: Titringur í aðdraganda kjaraviðræðna

17.08.2022 - 12:11
Efling stéttarfélag telur að svigrúm sé til launahækkana og segir mikla verðbólgu ekki réttlæta að laun séu látin hækka minna en verðlag. Flöt krónutöluhækkun komi sér best. Ríkissáttasemjari finnur fyrir titringi í aðdraganda kjaraviðræðna.

Forstjóri Vegagerðarinnar segir ljóst að vegakerfið myndi fljótt þurfa á endurnýjun að halda, nái áform um vikurflutninga milli Hafurseyjar og Þorlákshafnar fram að ganga. Þungaflutningar á Suðurlandi myndu aukast um allt að þrjátíu prósent. 

Lokað er að eldstöðvunum í Meradölum í dag vegna veðurs. Lokunarpóstur er á Suðurstrandarvegi og björgunarsveitarmenn standa þar vakt.

Ekkert barn í Reykjanesbæ fætt árið 2021 hefur fengið pláss á leikskóla í bænum og er staðan hvergi jafn slæm á landinu. Fræðslustjóri segir vandann vera vegna örrar fólksfjölgunnar. 

Mikil ummerki hafa sést um utanvegaakstur á hálendinu norðan Vatnajökuls í sumar. Framkvæmdastjóri Ferðafélags Fljótsdalshéraðs segir ástandið með því versta sem hann hafi séð.

Verðbólga mælist nú yfir tíu prósent í Bretlandi og hefur ekki verið meiri síðan 1982. Seðlabankinn í landinu spáir því að verðbólgan fari yfir þrettán prósent fyrir árslok.

Verði ekki brugðist við manneklu á Landspítala fer spítalinn í þrot. Þetta segir forstjóri spítalans sem segir að aldrei hafi vantað jafn marga starfsmenn.

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV