Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Finnur fyrir titringi í aðdraganda kjaraviðræðna

17.08.2022 - 09:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Allir kjarasamningar sem eru í gildi verða lausir í vetur. Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari var á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann segir að væntingar aðila vinnumarkaðarins hafi færst heldur í sundur undanfarið og hann finnur fyrir titringi í aðdraganda viðræðna.

Aðalsteinn segir að í alþjóðlegum samanburði sé það sérstakt að nánast allir kjarasamningar á landinu renni út og séu oftast lausir mánuðum saman áður en samið er á ný. Það eigi einnig við um að meira en helmingi allra kjaradeilna sé vísað til ríkissáttasemjara. 

Unnið sé að því að bæta samningaumhverfið hér á landi. „Ég gerði könnun meðal þeirra sem sitja í samninganefndum beggja vegna borðsins. Og það var margt athyglisvert sem kom þar í ljós, í síðustu kjaralotu voru um 40% þeirra sem tóku þátt nýir. Við sáum reyndar líka að um 20% þeirra sem svöru könnuninni sögðu að þeir myndu aldrei getað hugsað sér að gera þetta aftur.“ Til að bregðast við þessu segir Aðalsteinn að staðið hafi verið fyrir námsstefnum fyrir samningafólk.

Ríkissáttasemjari segist bjartsýnn fyrir komandi kjaraviðræðum en gerir ekki lítið úr því að erfiður kjaravetur sé fram undan. „Á þessu kjarasamningatímabili höfum við gengið í gegnum heimsfaraldur, við erum líka núna stödd á stað þar sem er mikil verðbólga og það er mjög ólík staða hjá ýmsum hópum og fyrirtækjum. Að vissu marki hafa væntingar aðila vinnumarkaðarins færst heldur í sundur. En það er gott líka að hafa í huga að í aðdraganda allra kjarasamninga er eðlilegt að það sé ákveðinn titringur.“

Aðalsteinn segist vona að eins sé farið með titringinn í aðdraganda kjaraviðræðna og jarðhræringar á Reykjanesskaga, að skjálftarnir í aðdragandanum séu verri en eldgosið sjálft. „Sumir sögðu að jarðhræringarnar hafi verið verri en eldgosið, og ákveðinn feginleiki þegar eldgosið tók við. Kannski er það ekkert ósvipað að það er ákveðinn titringur núna í aðdragandanum en vonandi verður þetta gott og árangursríkt samtal.“ 

 

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir