Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Spyrjið Sigurð Inga hvað hann ætlar að gera í málinu“

16.08.2022 - 22:00
Mynd: Kikkó / RÚV
Íbúar á Suðurlandi lýsa áhyggjum af fyrirhuguðum þungaflutningum á Suðurlandi samhliða stórfelldri námuvinnslu við Hafursey. Þeir óttast að vegakerfið þoli ekki álagið og kæra sig ekki um bílaflotann steinsnar frá heimili sínu.

„Mér líst svo sem ágætlega á þetta en ekki vel á allan bílaflotann, hann verður ekki skemmtilegur,“ segir Kjartan Stefánsson, íbúi í Vík í Mýrdal.

„Mér finnst þetta engan veginn vera rökrétt hugsun af neinu móti, vegna þess að vegakerfið þolir þetta bara engan veginn. Mér finnst margar aðrar lausnir í sjónmáli miðað við tækni í heiminum,“ segir Bjarni Heiðar Þorsteinsson, íbúi á Hellu.

Eins og hvað?

„Það hlýtur að vera hægt að dæla þessu út í skip, einhvers staðar. Landeyjahöfn er til dæmis nær heldur en Þorlákshöfn,“ segir Bjarni.

Sigurbjörgu Grétarsdóttur á Selfossi hugsast þessi áform ekkert sérstaklega, þar sem umferðin hefur verið til mikilla vandræða. 

„Það náttúrlega þyngist umferðin hérna, hún má nú varla við því. En hvað getur maður gert? Verður maður ekki bara að vera samt þakklátur fyrir allt. En mér finnst þetta ekkert sniðugt,“ segir Sigurbjörg. 

„Það er verið að tala um að beina umferðinni í Suðurhólana og mér finnst það alveg ömurlegt, því ég á heima þar og þá hef ég þá ofan í mér alveg.“

„Það er bara allt of mikil traffík hérna,“ segir Reynir Guðmundsson, íbúi á Hellu. 

Og ekki á það bætandi? „Nei, það er ekki á það bætandi,“ segir Reynir. 

Sigurbjörg Hermannsdóttir, íbúi á Selfossi, kallar eftir svörum frá samgönguráðherra. 

„Mér líst hreint ekki á þetta. Ég bara sé ekki fyrir mér hvernig þetta getur gengið, nú þegar umferðin er svoleiðis algjörlega kabút hérna á Austurveginum og úti við rána. Spyrjið Sigurð Inga hvað hann ætlar að gera í málinu,“ segir Sigurbjörg.