Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lokað við gosstöðvarnar á morgun vegna „skítaveðurs“

Mynd með færslu
Um 5-6 þúsund manns hafa lagt leið sína að gosstöðvunum í Meradölum á degi hverjum, samkvæmt sjálfvirkri talningu Ferðamálastofu. Lögreglan telur þó að fleiri fari um svæðið. Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RUV
Umferð fólks um gosstöðvarnar í Meradölum hefur gengið merkilega vel miðað við þann fjölda sem sækir á svæðið á hverjum degi. Þetta segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum. Lokað verður að gosstöðvunum á morgun vegna veðurs.

Daglega koma upp nokkur tilfelli þar sem þarf að aðstoða fólk af fjallinu vegna þess að það slasast eða ræður ekki við gönguna. Telur Úlfar að tilvikin séu á bilinu 10-20 á dag, en til samanburðar fara um 5-6 þúsund manns að gosinu á dag samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Algengustu slysin eru ökklabrot og snúningur á ökkla eða minniháttar skrámur þegar fólk dettur í grýttu hrauninu.

Lokað vegna skítaveðurs

Lokað verður að gosstöðvunum á morgun, miðvikudag, vegna veðurs. „Við gerum það með svipuðum hætti og síðast, það sem kallað er hörð lokun. Þá verðum við með vegpósta á Suðurstrandarvegi,“ segir Úlfar.

Spurður hvernig þeim boðum er komið til erlendra ferðamenn, segir hann að allir sem koma inn á svæðið fái sms-skilaboð þess efnis, en auk þess á að greina frá lokuninni á ferðamannavef Landsbjargar, Safetravel.is.

Lögreglumenn hafa, auk björgunarsveita, staðið vaktina við gosstöðvarnar frá því eldgos hófst fyrir tveimur vikum. Hann viðurkennir að það bitni á hefðbundnum löggæslustörfum enda séu það lögreglumenn í almennri deild sem sinni gæslunni.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV