Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Hver ætlar að bjarga þér ef eitthvað gerist?“

16.08.2022 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Hraunkvika úr gosinu í Meradölum í fyrra er farin að kreistast út úr gamla hrauninu vegna þunga þess nýja. Þótt yfirborð sé storknað getur bráð leynst undir. Þetta skapar mikla hættu og stórvarasamt er að ganga á gömlu hraunbreiðunni.

Við þessu varar eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands. Á mynd sem hópurinn birtir á Facebook má sjá hvernig syðst í hrauninu hefur komið upp mikil spýja og nyrst hefur hraunið þanist út um nokkra metra. Þrýstingurinn frá nýja hrauninu sé svo mikill að bráð síðan í fyrra komi út af miklum krafti þegar skel hraunsins brestur. 

Hjördísi Guðmundsdóttur, samskiptastjóra hjá Almannavörnum, segir hættulegt að fólk gangi á gömlu hraunbreiðunni. 

„Þetta er einhvern veginn óskiljanlegt að fólk geri þetta. Það er líka spurning hver ætlar að bjargar þér ef eitthvað gerist. Það gerir björgunaraðilum og viðbragðsaðilum vissulega mjög erfitt fyrir að ætla að bjarga fólki sem gengur út á hraunið, ef eitthvað gerist,“ segir Hjördís. 

Hætta sé á að fólk sitji fast í hrauninu eða festist inni á svæði þaðan sem ekki sé hægt að bjarga því. „Þannig að við biðjum fólk vinsamlegast um að ganga ekki á gömlu hrauni. Þó að maður telji vissulega að það sé öruggt þá er enginn sem getur vitað það.“

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV