Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hraunflóðið besta eldgosabrauðtertan 2022

Mynd með færslu
 Mynd: Brauðtertufélag Erlu og Erlu - Facebook

Hraunflóðið besta eldgosabrauðtertan 2022

16.08.2022 - 15:16

Höfundar

Hraunflóð, brauðterta Önnu Margrétar Magnúsdóttur, bar sigur úr býtum í Brauðtertukeppninni Eldgosið 2022. Þær Erla Hlynsdóttir og Erla Gísladóttir í Brauðtertufélagi Erlu og Erlu á Facebook blésu til keppninnar og voru 23 brauðtertur skráðar til leiks.

Lax og brómber leika aðalhlutverkið í Hraunflóði Önnu Margrétar. Ræfillinn í Geldingadölum, sem Sara Vilbergsdóttir gerði, varð í öðru sæti og Hrauntungusystur/Geldingadalir, sem Linda-Marie Blom og Guðbjörg Finnsdóttir gerðu, var í þriðja sæti. 

Keppnin var rafræn og fór fram í hópnum Brauðtertufélag Erlu og Erlu á Facebook. Allir meðlimir hópsins höfðu kosningarétt og greiddu atkvæði sitt með því að setja lyndistákn við mynd af þeirri brauðtertu sem þeim leist best á. 

Erla Hlynsdóttir, önnur Erlan sem hópurinn er kenndur við, segir ótrúlega skemmtilegt að hafa fylgst með hráefnisvali keppenda en terturnar voru margar hverjar mjög frumlegar. „Til dæmis brauðtertan sem hafnaði í þriðja sæti, í hana var notað popp sem var litað svart og pasta sem var litað appelsínugult. Manni hefði aldrei dottið þetta í hug,“ segir Erla. 

Þetta er í fyrsta skipti sem brauðtertufélagið heldur þessa keppni rafrænt en þær voru með keppni á Menningarnótt 2019. Aðspurð segir Erla aldrei að vita hvort keppnin verði haldin aftur að ári. „Maður fann gríðarlegan áhuga þannig að ég held að við þurfum endilega að halda fleiri keppnir.“

Mynd með færslu
 Mynd: Brauðtertufélag Erlu og Erlu - Facebook
Annað sæti: Ræfillinn í Geldingadölum, sem Sara Vilbergsdóttir gerði.
Mynd með færslu
 Mynd: Brauðtertufélag Erlu og Erlu - Facebook
Þriðja sæti: Hrauntungusystur/Geldingadalir, sem Linda-Marie Blom gerði.

Tengdar fréttir

Innlent

Keppast um að gera fallegustu eldgoss-brauðtertuna