Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Hann var sannarlega kóngurinn“

Mynd: Wikimedia Commons / RÚV

„Hann var sannarlega kóngurinn“

16.08.2022 - 13:20

Höfundar

Elvis var svo sannarlega kóngurinn segir Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarfræðingur, en 45 ár eru í dag frá láti Elvis Presley. Arnar Eggert vonar að yngra fólk gefi tónlist rokkkóngsins gaum því hún sé töfrar og algjör snilld.

Þennan dag fyrir 45 árum barst mörgum harmafregn, kóngurinn var dáinn, konungur rokksins eins og hann var gjarnan nefndur, aðeins 42 ára að aldri en illa farinn á líkama og sál. Banameinið  var skráð sem hjartaáfall, en ýmsar vísbendingar eru um að lyfjaneysla Presleys hafi spilað þar inn í. Elvis Presley sendi frá sér tugi hljómplatna og lék í 31 kvikmynd.

Hann kom átján lögum í efsta sæti Billboard-listans bandaríska og sviðsframkoma hans á upphafsárum rokksins þótti djörf og ögrandi, ekki síst heimsfrægir mjaðmahnykkir hans. Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarfræðingur segir ekki vafa leika á stöðu Presleys.

„Hann var sannarlega kóngurinn.“
En ef við skoðum rokksöguna, hvar myndum við setja Elvis?
„Það sem Elvis gerði í árdaga rokksins í Sun hljóðverinu er bara svo ótrúlegt. Raunverulega er nútímarokk bara fundið upp í einu sessioni og hann kom með svo mikið; viðhorf, stælar, líkaminn, raddbeitingin og svo framvegis. Og þegar maður skoðar þetta og rýnir í þetta, áhrif hans og hvernig rokk átti eftir að þróast verða alltaf ómæld.“
Nær hann ennþá til nýrra áheyrenda, nú er til dæmis mjög vinsæl bíómynd um ævi hans í sýningu?
„Ég og fleiri, nú er ég kominn á miðjan aldur, höfum haft áhyggjur af því hvernig goðsögninni reiðir af. Ég var mjög ánægður með myndina af því hún nær dálítið að fanga kraftinn og andann sem fylgdi Elvis, sérstaklega fyrstu árin, þannig að ég vona að yngra fólk skoði þetta mál. Ef ég hugsa þetta bara út frá tónlistarlegu tilliti þá eru þetta bara algjörir töfrar þessi tónlist sem hann færði okkur. Bara staðfest, þetta er bara algjört snilld.“