Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hættan á skakkaföllum í Svartsengi kallar á viðbrögð

Mynd með færslu
Svartsengisvirkjun er jarðvarmavirkjun, og framleiðir í senn hita og rafmagn. Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Raunveruleg hætta er á að orkuverið í Svartsengi verði fyrir skakkaföllum í því eldgosatímabili á Reykjanesskaga sem virðist hafið. Þetta kemur fram í samantekt viðbragðsteymis ráðuneytisstjóra, sem unnin var í júní. Talið er mikilvægt að greina orkuþörf á Suðurnesjum, bæði heitavatns og rafmagns, og undirbúa áreiðanlegar varaleiðir.

Viðbragðsteymið var sett saman eftir að jarðhræringar á Reykjanesskaga hófust að nýju snemmsumars. Var því falið að undirbúa og samhæfa viðbrögð stofnana við hugsanlegum áföllum.

5-15 ár að meðaltali milli gosa

Eldvirkni á Reykjanesskaga síðustu 4.000 árin einkennst af tímabilum eldgosa og goshléa, eins og ítrekað hefur verið tíundað í fréttum síðastliðið ár. Síðasta hrina varði frá um 800-1240 og er talin hafa hafist í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins að því er fram kemur í samantekt sem Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur vann fyrir viðbragðsteymið.

Á eldgosaskeiðum líða að meðaltali 5-15 ár milli gosa, þótt dæmi séu um að 100-150 ár líði. Þannig liðu um 150 ár frá gosunum í Brennisteinsfjallakerfinu í kringum 800, þar til eldvirkni tók sig upp á ný á svæðinu á 10. öld. Er það samt talið til sömu goshrinu.

Gosin eru jafnan lítil eða meðalstór. Þau stærstu um 0,3 rúmkílómetrar (300 millj. rúmmetrar) að rúmmáli, en meðalgos um 0,10-0,50 rúmkílómetrar. Gosið í Fagradalsfjalli var 0,15 rúmkílómetrar.

Lifum með innskotunum

Í samantektinni kemur fram að í ljósi jarðhræringa frá árinu 2019 og tveggja eldgosa þurfi að búast við endurteknum atburðum til langs tíma þar sem kvika leitar upp í efri lög jarðskorpunnar, með tilheyrandi jarðskjálftavirkni og hættu á eldgosum. Telur hópurinn að undirbúa þurfi samfélagið til þess að lifa við þessar aðstæður „án þess að skelfing grípi um sig í hvert sinn sem nýtt innskot myndast“.

Þá er, sem fyrr segir, talin raunveruleg hætta á að orkuverið í Svartsengi verði fyrir skakkaföllum sem yllu því að Suðurnes misstu orku og vatn sem þaðan kemur. 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV