Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki búið staðaldri í 717 húsum í Þórshöfn

16.08.2022 - 02:45
Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Nýjar tölur sýna að hundruð mannabústaða af ýmsu tagi standa meira og minna tómir í Þórshöfn, höfuðstað Færeyja, og næsta nágrenni. Þetta er viðbót við opinberar tölur frá árinu 2018 þar sem fram kom að ekki er búið að staðaldri í ríflega þrettán af hundraði íbúða.

Tölurnar frá 2018 náðu til 27 af 29 byggðarlögum eyjanna, þar sem finna má rúmlega ellefu þúsund íbúðir, en ekki til Þórshafnar og Fugleyjar sem er þeirra afskekktust.

Þangað hafa ekki verið gerð göng og lendingar frá sjó erfiðar í þeim tveimur byggðum sem þar eru, Kirkju og Hattarvík. Íbúar á Fugley eru mjög fáir og hafa ekki allir fasta búsetu þar.

Í Þórshöfn er ekki búið öllum stundum í 450 einbýlishúsum samkvæmt frétt KVF, 232 blokkaríbúðum og 35 íbúðum sem skilgreindar eru sem „annað“ í samantektinni.

Tölurnar koma frá Umhverfisstofnun og Hagstofu Færeyja sem hafa undanfarin tvö ár unnið að gerð opinberrar húsaskrár.

Auk þess að tryggja heildaryfirsýn á húsnæðismarkaðinn er tilgangur skrárinnar að greina hvaðan heimili kaupa orku og sömuleiðis heildarvirði fasteigna í landinu.