Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óvænt millilending í Keflavík í martraðarflugi United

15.08.2022 - 20:15
Mynd með færslu
 Mynd: Wiki commons
Flugvél United Airlines sem átti að fara frá Aþenu í Grikklandi til Newark í Bandaríkjunum í gær millilenti á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi við litla hrifningu farþega. Í samantekt flugbloggsins One Mile at a Time kemur fram að farþegar hafi ekki komist til Newark fyrr en tæpum tíu klukkustundum eftir áætlaðan lendingartíma.

Til stóð að fara í loftið frá Aþenu um hádegi að staðartíma. Einn flugmannanna greindist hins vegar með kórónuveiruna á meðan áhöfnin var í Aþenu. Þar sem reglur gera ráð fyrir þremur flugmönnum í svo löngu flugi var ekki hægt að fara strax í loftið. 

Í samantekt One Mile at a Time segir að United Airlines hefði getað valið að aflýsa ferðinni. Það hefði hins vegar reynst bæði dýrt og strembið að bóka hótel fyrir ríflega 300 farþega í Aþenu um hásumar. Því var brugðið á aðra lausn.

Sú lausn fólst í því að millilenda í Keflavík. Heimilt er að fljúga frá Aþenu til Keflavíkur með einungis tvo flugmenn og því var hægt að koma áhöfn til Keflavíkur til þess að leysa hina af þegar þangað var komið.

Þetta var þó ekki vandræðalaust, segir í samantektinni. Hin nýja áhöfn þurfti umsaminn hvíldartíma og til að koma í veg fyrir að farþegar þyrftu að vera lengur á Keflavíkurflugvelli en nauðsynlegt var beið vélin í Aþenu í fimm klukkutíma í staðinn.

Farþegar þurftu þó að bíða nokkuð lengi í Keflavík. Einn farþega segir í tísti að veiku barni hafi verið komið úr flugvélinni í Keflavík og að bíða hafi þurft eftir nýjum sjúkrakassa. Þetta tók dágóða stund og þegar vélin komst loksins til Newark voru um tíu tímar liðnir frá því hún átti að lenda þar, samkvæmt áætlun.

Þórgnýr Einar Albertsson