Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lögregla rannsakar hótanir í garð JK Rowling

epa03864552 (FILE) A file picture dated 07 July 2009 shows British author J K Rowling appearing on the red carpet at the world premiere of 'Harry Potter and the Half Blood Prince' in Leicester Square, London, Britain. On 12 September 2013,
 Mynd: EPA - EPA FILE
Lögregla á Bretlandi rannsakar nú hótun gegn rithöfundinum JK Rowling, höfundar bókanna um galdrastrákinn Harry Potter. Hótunin barst í kjölfar batakveðju sem hún sendi rithöfundinum Salman Rushdie.

Rowling skrifaði á Twitter síðastliðinn föstudag hve henni liði illa vegna fréttarinnar af árásinni á Rushdie. „Hræðilegar fréttir,“ skrifaði hún og óskaði kollega sínum góðs bata.

Í frétt The Guardian segir að svohljóðandi svar hefði komið frá notanda sem gengur undir heitinu Meer Asif Asiz: „Hafðu ekki áhyggjur, þú ert næst.“

Rowling deildi skjáskoti af hótuninni og greindi frá því að lögregla rannsakaði málið. Talsmaður skosku lögreglunnar staðfestir það. Sami notandi hefur hyllt manninn sem réðist að Rushdie og veitti honum fjölda stungusára. 

Hræðilegur dagur fyrir tjáningarfrelsið og bókmenntirnar

Stjórnendur Warner Bros Discovery, sem framleiddu kvikmyndirnar um Harry Potter, fordæma hótanirnar harðlega og segjast standa með henni og öllum öðrum rithöfundum og sagnamönnum sem tjá skoðanir sínar.

Jafnframt kváðust þeir trúa á skoðanafrelsi, friðsamleg skoðanaskipti og stuðning við hverja þá sem tjá viðhorf sín opinberlega. Hins vegar kváðust þeir andæfa kröftuglega öllum tilraunum til hótana eða kúgunar.

Rowling kveðst vonsvikin og reið vegna viðbragða Twitter sem segja athugasemd Asiz ekki brjóta gegn reglum miðilsins. Hún benti stjórnendum hans í kjölfarið á þá meginreglu Twitter að ekki mætti hóta einstaklingum eða hópum ofbeldi og að ekki mætti hvetja til ofbeldis eða hryðjuverka.

Fjöldi rithöfunda hefur sent Rushdie batakveðjur, þeirra á meðal Stephen King, Neil Gaiman og William Dalrymple sem segir árásina skelfilega fyrir bókmenntirnar, tjáningarfrelsið og í raun alla rithöfunda hvarvetna.