Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tóku niður og eyðilögðu regnbogafána við Hjallakirkju

Mynd með færslu
 Mynd: Pétur Magnússon
Regnbogafáni sem flaggað var fyrir utan Hjallakirkju í Kópavogi var tekinn niður og eyðilagður í nótt. Sunna Dóra Möller, sóknarprestur í kirkjunni, telur ljóst að það hafi verið viljaverk og er búin að tilkynna málið til lögreglu

Þegar Sunna Dóra Möller, sóknarprestur við Hjallakirkju, mætti til vinnu í morgun sá hún að búið var að taka niður regnbogafána á lóð kirkjunnar. Fáninn lá í runna við fánastöngina, samanbrotinn. Festingar fánans höfðu verið rifnar svo ekki var hægt að hengja hann aftur upp.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu.

Sunna segir að það þurfi töluvert afl til að rífa festingar fánans. „Það var verið að gera það klárt að við gætum ekki sett hann upp aftur,“ segir Sunna.

„Mér var mjög brugðið. Mér fannst þetta mjög óþægilegt.“

„Við höfum haft fánann stolt uppi við kirkjuna síðan hinsegindaga byrjuðu. Þetta er óþægilegt og maður skilur ekki tilganginn með því þegar þessir fánar eru teknir niður,“ segir Sunna.

Mynd með færslu
 Mynd: Pétur Magnússon

Sunna er búin að tilkynna málið til lögreglu.

„Í mínum huga er þetta hatursglæpur. Það er ekki hægt að líta á þetta öðruvísi. Við erum búin að sjá þetta gerast víða. Þetta er engin tilviljun,“ segir Sunna. „Mér finnst þetta andstætt því sem regnbogafáninn stendur fyrir, og markmiðum Hinsegin daga og opinnar umræðu.“

Hún segist ætla að kaupa nýjan fána og hengja hann upp. „Við ætlum ekki að láta deigan síga. Við þurfum að ræða þessa vaxandi fordóma. Ég held að við finnum það öll, sérstaklega í undanfara Hinsegin daga, að það er eins og umræðan sé að breytast. Við þurfum að halda vöku okkar og kirkjan tekur þátt í því,“ segir Sunna.

Fyrr í vikunni voru allir regnbogafánar á Hellu skornir niður í skjóli nætur. Þá hafa Samtökunum '78 borist fjölda tilkynninga um áreitni gegn hinsegin fólki eftir Hinsegin daga sem haldnir voru í byrjun mánaðar.