Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þriggja daga þjóðarsorg lýst yfir í Svartfjallalandi

epa10117910 A crime scene investigator inspects the crime scene at Cetinje, Montenegro, 12 August 2022. A 34 year old male in Montenegro went on a shooting rampage after a family dispute, killing at least 10 people on the street before being gunned down in an exchange of fire with the police.  EPA-EFE/BORIS PEJOVIC
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dritan Abazović, forsætisráðherra Svartfjallalands, lýsti í gær yfir þriggja daga þjóðarsorg eftir að maður á fertugsaldri myrti tíu og særði sex í borginni Cetinje á föstudag.

Forsætisráðherrann segir atburðinn fordæmalausan á síðari tímum. Íbúum Cetinje er mjög brugðið og eru enn að átta sig á atburðarásinni að sögn Mladen Zadrima, yfirmanns útvarpsstöðvar í borginni.

Almennur borgari skaut manninn til bana eftir að hann hafði gengið hús úr húsi og myrt fólk með köldu blóði. Þar á meðal var móðir og tvö ung börn hennar.

Nágrannar skotmannsins lýsa honum sem hæglátum fjölskyldumanni, fjögurra barna föður sem vann í nálægum þjóðgarði og var meðlimur í skotveiðiklúbbi. Sex særðust, þar af þrír alvarlega.

Yfirvöld hafa ekki enn látið nokkuð uppi um hvað kunni að hafa orðið til þess að maðurinn framdi þetta voðaverk en talið er að hann hafi misst stjórn á sér eftir fjölskyldudeilur.

Borgin Cetinje var eitt sinn kongunglegur höfuðstaður Svartfjallalands og er enn opinber dvalarstaður forseta landsins. Íbúar eru um 14 þúsund. Efnahagsástandið í borginni hefur verið á fallanda fæti eftir að verksmiðju sem veitti mörgum vinnu var lokað. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV