Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stórar hugmyndir um nýjan miðbæ á Höfn í Hornafirði

14.08.2022 - 08:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrstu drög að uppbyggingu nýs miðbæjar á Höfn í Hornafirði hafa verið birt. Gert er ráð fyrir að byggja allt að 17 þúsund fermetra og arkitektar eru þeir sömu og hönnuðu nýjan miðbæ á Selfossi.

„Mikil stemning fyrir þessu hérna fyrir austan“

Það var Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, sem greindi frá því á Facebook að búið væri að hanna fyrstu drög að nýjum miðbæ á Höfn. Það er útgerðarfyrirtækið Skinney-Þinganes sem stendur að baki verkefninu í samstarfi við Batteríið arkitekta en þeir hönnuðu meðal annars nýjan miðbæ á Selfossi í fyrra. Sigurjón er spenntur fyrir komandi tímum á Höfn. „Þetta eru hugmyndir um mikla uppbyggingu í miðbæ Hafnar í Hornafirði og mjög glæsilegar og það er mikil stemning fyrir þessu hérna fyrir austan,“ segir Sigurjón.

Vöxtur í bænum

Hann segir að með fjölgun íbúa og ferðafólks sé uppbygging tímabær á Höfn. „Okkur hefur verið að fjölga talsvert og núna í vikunni náum við 2500 íbúa markinu og það er mikill húsnæðisskortur hér eins og víða annars staðar. Það er er mikill vöxtur í atvinnulífinu hérna, mikið tengt ferðaþjónustu og ýmissi þjónustu tengdri þeirri starfsemi þannig að það veitir ekki af þessu og erum við reyndar að skipuleggja fleiri svæði til íbúðabyggðar, stærri svæði líka.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Batteríið Akrítektar