Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Skotmaður yfirbugaður í flugstöð við Canberra-flugvöll

14.08.2022 - 06:17
epa10120097 Three bullet holes are seen on the airport windows after a man fired at least three gunshots at Canberra Airport in Canberra, Australia, 14 August 2022. The airport was evacuated and a man was arrested in relation to the event, with police confirming there have been no reported injuries.  EPA-EFE/MICK TSIKAS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Enginn særðist í morgun þegar karlmaður hleypti af nokkrum skotum innandyra í flugstöð helsta flugvallar Canberra, höfuðborgar Ástralíu. Lögregla yfirbugaði manninn fljótlega meðan viðvörunarflautur hljómuðu um alla bygginguna.

Talið er að maðurinn hafi náð að hleypa af um það bil fimm skotum áður en lögregla náði honum. Dave Craft, starfandi aðstoðaryfirlögregluþjónn höfuðborgarlögreglunnar, segir að maðurinn hafi ekki beint byssunni að nokkrum manni.

Mikill ótti greip um sig meðal farþega í flugstöðinni sem leituðu skjóls hvar sem það var að finna.

Greinileg kúlnagöt eru sjáanleg á glerframhlið flugstöðvarinnar. Höfuðborgarlögreglan greindi frá útkallinu í morgun og sagði skamman tíma hafa tekið að yfirbuga manninn og ná af honum skotvopninu.

Lögregla kveðst hafa náð stjórn á aðstæðum, segir enga frekari hættu á ferðum en að flugstöðin sé meðhöndluð sem glæpavettvangur.

Craft segir manninn hafa staðið upp úr sæti sínu á brottfararsvæði flugstöðvarinn og hafið skothríðina. Hann er nú í varðhaldi. Lögregla skoðaði eftirlitsmyndavélar flugstöðvarinnar og álítur að maðurinn hafi verið einn að verki. Ekki er ljóst hvað honum gekk til. 

Fréttin var uppfærð klukkan 7:12 með nánari upplýsingum um atburðarásina.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV