Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rushdie farinn að tala og árásarmaður segist saklaus

epa10117604 Frame grab from a video released via Twitter user @HoratioGates3 and used with permission, showing Salman Rushdie being loaded into a MedEvac helicopter after he and an interviewer were attacked while on stage at an event in Chautauqua, New York State, USA, 12 August 2022. The suspect was taken into custody, New York State police said. Rushdie, who was reportedly stabbed in the neck, was transported to a hospital.  EPA-EFE/@HoratioGates3 EDITORIAL USE ONLY, NO SALES HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - @HoratioGates3
Maðurinn sem ákærður hefur verið fyrir tilraun til manndráps með því að ráðast að og særa rithöfundinn Salman Rushdie með hnífi lýsti yfir sakleysi frammi fyrir dómara í gær.

Saksóknarar sögðu hinn tuttugu og fjögurra ára Hadi Matar hafa stungið Rushdie oftar en tíu sinnum. Árásina segja þeir hafa verið skipulagða og gerða af ráðnum hug.

Matar er í gæsluvarðhaldi og fæst ekki látinn laus gegn tryggingu. Lögregla hefur enn ekki látið nokkuð uppi um bakgrunn hans né hvað honum kunni að hafa gengið til. 

Þó er vitað að hann er af líbönskum uppruna en fæddist og ólst upp í Bandaríkjunum. Fréttamenn AFP reyndu án árangurs að ná tali af föður hans sem búsettur er í litlu þorpi í Líbanon.

Tiltölulega lítil öryggisgæsla var við bókmenntasamkomuna í Chautauqua-stofnuninni þar sem Rushdie var við það að taka til máls þegar Matar réðist að honum.

Hann kom allnokrum hnífslögum á Rushdie áður en öryggisverðir og gestir náðu að yfirbuga hann. Rushdie hefur lifað í skugga dauðadóms leiðtoga klerkastjórnarinnar í Íran frá því bók hans Söngvar Satans kom út 1988.

Lýsingar skáldsins á Múhammeð spámanni þótti klerkunum vera guðlast. Heimsbyggðin hefur fordæmt atlöguna að Rushdie en harðlínumenn í Íran og Pakistan fögnuðu henni.  

Laus úr öndunarvélinni

Salman Rushdie er nú laus úr öndunarvélinni þar á sjúkrahúsi þar sem hann hefur legið síðan eftir árásina á föstudag. Árásarmaðurinn stakk Rushdie tólf sinnum og særði hann alvarlega.

Aatish Taseer, vinur rithöfundarins segir hann merkilega hressan í ljósi aðstæðna, hann spjalli og gantist við gesti sína. Andrew Wylie, umboðsmaður Rushdies staðfestir þau orð án þess að láta nokkuð frekar í ljós um líðan hans.