Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Byggja leikskóla og neðansjávarveitingastað í Gufunesi

14.08.2022 - 16:32
Mynd með færslu
 Mynd: Yrki arkitektar
Sjóböð, sundlaug, leikskóli, umbúðalaus verslun og neðansjávarveitingastaður eiga að rísa á Gufunesbryggju og verða kjarni nýs hverfis í Gufunesi. Borgarráð hefur samþykkt tillöguna sem kemur frá Þorpinu-Vistfélagi og bar á dögunum sigur úr býtum í alþjóðlegri samkeppni um tillögur fyrir svæðið á Gufunesbryggju.

Áslaug Guðrúnardóttir er framkvæmdastjóri samskipta og markaðsmála hjá Þorpinu-Vistfélagi. „Okkar tillaga er sem sagt að reisa þarna tvö hús sem að koma út á gömlu Gufunesbryggjuna. Hugmyndin er að nýta aðstöðuna þarna, það er þarna lítil strönd og hafa þarna aðstöðu til sjóbaða, vera með sundlaug og heita potta, íbúðir og það verður þarna veitingastaður sem er búið að teikna og hann verður að hluta til neðansjávar. Ætlum að hafa þarna leikskóla og matvöruverslun og allt í þessum stíl.“

Skrifstofa borgarstjóra mun nú hefja viðræður við Þorpið um lóðavilyrði. Þorpið mun svo annast alla uppbyggingu og gerir Áslaug ráð fyrir að hugmyndin verði að veruleika á næstu þremur til fimm árum. Þorpið er fasteignaþróunarfélag með áherslu á umhverfismál, samvinnu og gott sambýli fólks. Fyrsta verkefni félagsins var einmitt uppbygging húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Gufunesi, þar hafa allar íbúðir verið seldar og færri komust að en vildu. „Þetta svæði er að breytast úr því að vera gamalt dautt iðnaðarhverfi í það að vera mjög líflegt. Það eru hugmyndir um að setja göngubrú út í Viðey og að það verði hægt að taka bátastrætó frá miðbænum þarna út eftir. Þetta er náttúrulega í rauninni mjög stutt frá miðbænum þó að leiðin þangað núna sé ofsalega löng.“

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjarvíkurborg - Youtube
Gufunesbryggja árið 2020.
Mynd með færslu
 Mynd: Yrki arkitektar
Mynd með færslu
 Mynd: Yrki arkitektar
Mynd með færslu
 Mynd: Yrki arkitektar
Myndir frá Yrki arkitektum af tillögum Þorpsins-Vistfélags.
astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir