Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bræður björguðu fimm manns úr Krossá

14.08.2022 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Fimm erlendum ferðamönnum var bjargað úr miklum háska í Krossá á leið inn í Þórsmörk í gær. Bíll þeirra var fyrir framan mikinn hyl í ánni og illa hefði getað farið. Harpa Sif Þorsteinsdóttir, formaður björgunarsveitarinnar á Hvolsvelli, segir að ferðamennirnir hafi augljóslega ekki vitað hve hættuleg áin er. 

Harpa fór fyrir aðgerðum sveitarinnar þegar komið var í Þórsmörk í gær. Þá höfðu tveir bræður sýnt mikið þrekvirki og bjargað öllum þeim fimm sem sátu fastir úti í ánni aftur á land.

„Við hjálpuðum til við að ná bílnum upp úr ánni," segir Harpa

Var það mikið verk?

Það tók smá tíma, já. Það var djúpur hylur fyrir framan bílinn. En það fóru bara tveir í flotgalla og náðu að binda í hann. Svo kom traktor frá Langadal sem dró hann svo upp."

Harpa ræddi við ferðamennina í gær sem báru sig nokkuð vel miðað við aðstæður. Þeim var þó kalt og því fengu þeir að leita skjóls í rútu sem var á svæðinu þar sem þeir fengu teppi. Harpa segir að ferðamennirnir hafi alls ekki vitað hvað þeir væru að fara út í.

„Það var svona mín tilfinning að þeir hafi kannski ekki áttað sig á vatnsmagninu sem er í Krossánni," segir Harpa.

Áður sagði að skálaverðir hafi bjargað ferðamönnunum úr Krossá. Nýjar upplýsingar bárust fréttastofu og hefur fréttinni og fyrirsögn hennar verið breytt í samræmi við það.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV