Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lögregla leitar manns eftir hnífaárás í miðborginni

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Ráðist var að manni í miðborg Reykjavíkur í nótt og hann stunginn með hnífi í bakið. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi en hans er nú leitað samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Sá sem fyrir varð var fluttur með meðvitund á slysadeild til frekari aðhlynningar en lögregla gefur ekki frekari upplýsingar um málið að svo komnu.

Lögreglan leitar einnig að ferðamanni sem hljóp frá reikningi á veitingastað í miðbænum. Hópslagsmál brutust út í miðborginni í nótt og einnig slógust menn á skemmtistað úthverfi Reykjavíkur.

Þar var allt orðið rólegt þegar lögreglu bar að og urðu engin eftirmál af ólátunum.

Lögregla fékk einnig tilkynningu um óðan mann á skemmtistað í Kópavogi, eins og það er orðað í tilkynningu og var sá handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Krakkar reyndu að kveikja í leiktækjum á skólalóð í Neðra-Breiðholti en þau voru farin á brott þegar lögregla kom á staðinn og engar skemmdir sjáanlegar. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV